Lífslíkur Breta við 65 ára aldur aldrei hærri.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni í Bretlandi hafa lífslíkur þar í landi við 65 ára aldurinn aldrei verið hærri frá því að mælingar hófust og á það bæði við um karla og konur.
Ólifuð meðalævi  65 ára karla er 16,6 ár  og kvenna 19,4 ár, ef miðað er við dánarlíkur áranna 2003 til 2005.

Lífslíkurnar eru þó mismunandi eftir landshlutum í Bretlandi. Hæstu lífslíkur við 65 ára aldurinn eru í Englandi 16,8 ár fyrir karla og 19,6 ár fyrir konur. Lífslíkurar eru minnstar í Skotlandi eða 15,5  hjá körlum og 18,4 ár hjá konum.

 

Lífslíkur við fæðingu eru einnig þær mestu sem mælst hafa hjá báðum kynjum. Drengir sem fæðast í Bretlandi geta vænst þess að lifa að meðaltali til 76,6 ára aldurs og stúlkur til 81 ára aldurs.

 

Að sögn talsmanns hjá Hagstofunni í Bretlandi hafa lífslíkur aukist mjög mikið hjá eldra fólki, sérstaklega á allra síðustu árum.

“Milli áranna 1980 til 1982 og  2003 til 2005 hafa lífslíkur 65 ára einstaklinga í Bretlandi aukist um 3,7 ár hjá körlum og 2,5 ár hjá konum. Um það bil einn þriðji af þessari aukingu á lífslíkum hefur átt sér stað á síðustu fimm árum."


Mestu lífslíkurnar eru í betri hverfum í London, svo sem í Kensington og Chelsea (82.2 ár hjá körlum og 86,2 ár hjá konum). Minnstu lífslíkurnar eru í Glasgow (69.9/76.7).

 

Við þessa frétt er svo að bæta að ólifuð meðalævi 65 ára á Íslandi er mun hærri en í Bretlandi.

Samkvæmt tölflum um dánarlíkur fyrir árin 2001 til 2005 getur 65 ára karl vænst þess að lifa í 17,8 ár og 65 ára kona í 20,6 ár. Ólifuð meðalævi við 65 ára aldurinn miðað við lífslíkur áranna 1971 til 1975 var 15 ár hjá körlum og 17,8 ár hjá konum.  Talið er að lífslíkur geti aukist um eitt ár að meðaltali á fimm ára fresti hjá 65 ára einstaklingum.