Nýjar tölur frá Hagstofu Hollands sýna fram á að lífslíkur sveinbarna sem fæddust árið 2010 hafa aukist um 2,3 ár að meðaltali borið saman við áætlaðar lífslíkur þeirra sveinbarna sem fæddust árið 2000. Gera má ráð fyrir því að nýfædd sveinbörn geti nú lifað að meðaltali til 79 ára aldurs. Lífslíkur stúlkubarna fæddar árið 2010 hafa að sama skapi aukist um 2,1 ár miðað við stúlkubörn, sem fæddust aldamótaárið 2000. Stúlkubörn fædd árið 2010 geta búist við því að ná að meðaltali tæplega 82 ára aldri.
Hagstofa Hollans hefur líka fundið út að á síðasta áratug hafi lífslíkur 65 ára karlmanna aukist um 2,2 ár að meðaltali, sem merkir að ólifuð meðalævi 65 ára karla er nú áætluð 17,6 ár. Á sama hátt hafa lífslíkur kvenna 65 ára og eldri aukist um 1,6 ár að meðaltali síðasta áratug og má ætla að ólifuð meðalævi 65 ára kvenna sé nú 20,8 ár.
Þá telur Hagstofa Hollans að lífslíkur 65 ára einstaklinga muni aukast jafnvel enn frekar eða um 1,5 ár hjá körlum og 1,2 ár hjá konum, ef dánartíðni heldur áfram að minnka í samræmi við nýlar fólksfjöldaspár.
Egbert Kromme, formaður nefndar á vegum hollenska tryggingafræðinga, sem fjallar um dánarlíkur, segir að þessar nýju tölur frá Hagstofu Hollands staðfesti álit tryggingafræðinganna, sem fram komi í lífslíkurtöflum frá því í september 2010 og einnig að aukning á lífslíkum á síðasta áratug muni halda áfram. „Á hverju ári muni lífslíkur aukast um tvo til þrjá mánuði og meðal ævilíkur munu því aukast um 2 ár á hverjum áratug," fullyrðir Egbert Kromme.
Frank Driessen, tryggingafræðingur hjá Aon Hewitt, upplýsti að þeir muni framvegis nota árlega nýjustu töflur yfir dánarlíkur í stað þess að endurskoða dánarlíkurnar á fimm ára fresti, eins og fram að þessu hafi verið gert.