Lífeyrisúrbætur Frakka ófullnægjandi

Sérfræðingar segja breytingar Frakka á lífeyriskerfi sínu vera bæði ófullnægjandi og of dýrar. Neil Howe og Richard Jackson, sérfræðingar hjá Centre for Strategic and International Studies, hafa rannsakað vandamál tengd fjölgun eldri borgara og hvernig ríki búa sig undir breytingar á aldurspýramídanum. Samkvæmt rannsókn þeirra munu úrbætur á franska lífeyriskerfinu valda því að draga muni verulega úr greiðslum til lífeyrisþega í framtíðinni. Þeir telja að tekjur miðstéttarfólks á eftirlaunum í Frakklandi og á Ítalíu dragist saman um 15% á næstu þremur áratugum.

 


Í skýrslu Howe og Jackson segir einnig: „Frakkar og Ítalir verja svo miklum fjármunum í ellilífeyrisgreiðslur, og hafa svo lítið svigrúm til að undirbúa aukningu á framtíðargreiðslum, að þrátt fyrir umbætur eru lífeyriskerfi þeirra á ósjálfbærri fjárhagsleið.“ Stéphane Hamayon hjá frönsku ráðgjafarstofunni Harvest tekur undir með sérfræðingunum og segir að þrátt fyrir að eftirlaunaaldur hafi verið hækkaður úr 60 árum í 62 ár muni það ekki duga til að koma Frökkum úr þeim fjárhagsvanda sem steðjar að lífeyriskerfinu. Þá muni vandinn vaxa á komandi áratugum samhliða auknu atvinnuleysi. Hann segir spár ríkisstjórnarinnar um að ná halla lífeyrissjóðanna niður í 24,5 milljarða evra fyrir 2040 vera óraunsæjar, þar eð þær séu reiknaðar út frá 4.5% atvinnuleysi árið 2018 en ekki þeim 8% sem Frakkar búa við í dag. Sé gert ráð fyrir 8 % atvinnuleysi verði hallinn tvöfalt hærri árið 2040 en opinberar tölur segja til um. Byggt á www.ipe.com.