Sagt var frá því í kvöldfrétttum ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins, sunnudaginn 20. september, að tveir stjórnarmenn í VR stéttarfélagi hyggist leggja fram kæru á hendur stjórn og stjórnendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) til Fjármálaeftirlitsins vegna brota á samþykktum sjóðsins og lögum um lífeyrissjóði. Í fréttinni kemur á engan hátt fram hvaða ákvæði samþykkta eða laga kunni að hafa verið brotin og er engin tilraun gerð af hálfu fréttamanns til að komast að því. Í fréttinni er aðeins vísað almennt til fjárfestinga í skráðum félögum, þ.e. Kaupþingi banka hf. og Exista hf. og ætluð áhrif venslatengsla á þau viðskipti. Þá er einnig vísað til lánveitinga til Bakkavarar hf. eftir fall bankakerfisins sem og að annarleg sjónarmið hafi legið að baki gjaldmiðlavörnum sjóðsins.
Stjórnendur LV harma þær fjölmörgu rangfærslur sem fram komu í fréttinni og vísa alfarið á bug fullyrðingum um brot á lögum og samþykktum sjóðsins sem og að fjárfestingar sjóðsins hafi byggst á öðru en viðskiptalegum forsendum.
Í tilvitnaðri frétt er látið að því liggja að LV hafi veitt stórlán til Bakkavarar eftir hrun eða í byrjun þessa árs. Slíkar fullyrðingar og aðdróttanir eru með öllu tilhæfulausar.
Stjórn VR og LV sem og framkvæmdastjóri LV hafa átt fund þar sem ítarlega var farið yfir skuldabréfakaup LV og gjaldmiðlavarnarsamninga. Þeir tveir stjórnarmenn VR sem hyggjast leggja fram kæru á hendur LV sátu þann fund. Það hefur verið mat LV að tilteknar umbeðnar upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins og gjaldmiðlavarnarsamninga sé ekki rétt að gera opinberar við svo búið með vísan til ákvæða laga og hagsmuna LV þar sem sum mál eru nú til úrlausnar í viðkvæmu samningaferli. Vart er þó þörf að árétta að stjórn LV, sem m.a. er skipuð fjórum fulltrúum VR hefur beinan og óheftan aðgang að öllum upplýsingum sem hún biður um.
Hvað fjárfestingar í einstökum félögum varðar þá er því alfarið vísað á bug að þau venslatengsl sem vísað er til í fréttinni hafi á einhvern hátt haft áhrif á fjárfestingar LV í Kaupþingi, Exista eða tengdum félögum. Ótvírætt er að þær standast ákvæði laga og samþykkta LV og voru teknar á viðskiptalegum forsendum á hverjum tíma. Þá er rétt að nefna í þessu sambandi að eignarhlutur LV í nefndum félögum hefur um flest verið í takt við hlut annarra stærri lífeyrissjóða í nefndum félögum sem og tekið verulegt mið af vægi þeirra í Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands. Þannig átti LV 2,6% í Kaupþingi í október 2008 en Gildi lífeyrissjóður 2,7% Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) 3,4% á sama tíma. Hlutur LV í Exista nam 4,0%, Gildis 4,1% og LSR 1,5%. Þá var hlutur LV í Bakkavör á nefndum tíma 6,5%, Gildis 8,8% og LSR 6,0%.
Gjaldeyrisvarnir LV og þeir samningar sem þeir byggja á voru að fullu í samræmi við gildandi lög og reglur. Þeir höfðu þann eina tilgang að verja sjóðinn fyrir neikvæðum áhrifum á sveiflum í gengi krónunnar en eins og kunnugt er eru skuldbindingar lífeyrissjóða alfarið í íslenskum krónum en umtalsverður hluti eigna í erlendum myntum. Samningar LV voru í þeim efnum ekki frábrugðnir samningum margra annarra lífeyrissjóða.
Það er ljóst að LV hefur eins og aðrir sjóðir sem fjárfestu m.a. í íslensku atvinnulífi, orðið fyrir skakkaföllum vegna fjármálakreppunnar og þar með sjóðfélagar. Það harma stjórnendur sjóðsins og leggja áherslu á að byggja upp sterkt eignasafn svo unnt verði að efla sjóðinn á ný og veita sjóðfélögum hér eftir sem hingað til góð lífeyrisréttindi.
Í yfirlýsingu, sem Þorgeir Eyjólfsson, fyrrverandi forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir m.a.: „Í þessu andrúmslofti tortryggni þar sem fólk er sekt uns það nær að sanna sakleysi sitt þá er það mikill ábyrgðarhlutur að koma fram með ásakanir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum."
Sjá hér yfirlýsingu Þorgeirs Eyjólfssonar.