Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur lækkað vexti á lánum til sjóðfélaga í 4,15% og fetar þannig í fótspor Íbúðalánasjóðs og viðskiptabankanna. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri sjóðsins, segir tilgang vaxtalækkunarinnar þann að viðhalda markaðsstöðu sjóðsins á sviði lánveitinga til sjóðfélaga.
„Beinar lánveitingar til sjóðfélaga hafa ætíð skipað þýðingarmikinn sess í starfsemi lífeyrissjóðsins og þessi hluti verðbréfasafns sjóðsins hefur gefið jafna og traust ávöxtun á liðnum árum auk þess sem útlánatöp hafa verið hverfandi," sagði Þorgeir.
Hann segir að frá því í byrjun september hafi LV lánað sjóðfélögum jafnháar fjárhæðir og á fyrstu átta mánuðum ársins og nýjar lánveitingar frá sjóðnum séu umfram uppgreiðslur sem hafa verið töluverðar. „En við höfum náð að viðhalda okkar hlutdeild og vel það. Því erum við nokkuð sátt hér á bæ" sagði Þorgeir.
Lánin eru með föstum vöxtum til allt að 40 ára. Þau er hvenær sem er hægt að greiða upp án uppgreiðslugjalds. Veðhlutfall getur hæst orðið 65% af markaðsverði fasteignar.