Stjórnir Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Suðurnesja hafa sameiginlega tekið ákvörðun um að stefnt skuli að því að sameina sjóðina. Eftir sameininguna munu eignir og skuldbindingar Lífeyrissjóðs Suðurlands renna til Lífeyrissjóðs Suðurnesja og mun hinn sameinaði sjóður heita Lífeyrissjóður Suðurlands, með heimilisfang að Tjarnargötu 12, 230 Reykjanesbæ. Rekstur skrifstofu LSL að Austurvegi 38, Selfossi verður óbreyttur.
Stefnt er að því að sameiningin taki gildi 1. júlí 2005 og tekur Lífeyrissjóður Suðurnesja þá við öllum eignum Lífeyrissjóðs Suðurlands og yfirtekur um leið allar skuldbindingar Lífeyrissjóðs Suðurlands gagnvart félögum sjóðsins. Stefnt er að því að réttindi félaga í Lífeyrissjóði Suðurlands muni frá þeim degi verða hin sömu og þau réttindi sem félagar Lífeyrissjóðs Suðurnesja njóta nú. Frá og með 1. júli 2005 yfirtekur skrifstofa Lífeyrissjóðs Suðurnesja alla starfsemi Lífeyrissjóðs Suðurlands, annast greiðslu lífeyris og alla þjónustu við félaga.
Á undanförnum árum hefur umhverfi lífeyrissjóða á Íslandi breyst mikið og m.a.hafa nýjar reglugerðir, auknar arðsemiskröfur, samkeppni og hert eftirlit aukið verulega þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi lífeyrissjóða. Stjórn Lífeyrissjóðs Suðurlands og stjórn Lífeyrissjóðs Suðurnesja hófu viðræður á haustmánuðum í þeim tilgangi að kanna hvort að hagsmunum sjóðfélaga gæti hugsanlega verið best borgið með formlegri sameiningu sjóðanna tveggja og varð það niðurstaðan.
Stjórnir Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Suðurnesja hafa í hyggju að byggja upp sterkan sjóð sem staðið getur af sér áföll og verið sjóðfélögum sínum traustur bakhjarl.