Lífeyrissjóður Bolungarvíkur sameinast Frjálsa lífeyrissjóðnum.

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og stjórn og fulltrúaráð Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur hafa samþykkt að sameina sjóðina frá og með 1. janúar 2006. Sameiningin verður með þeim hætti að Frjálsi lífeyrissjóðurinn tekur við eignum og skuldbindingum Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur og verður hinn sameinaði sjóður rekinn undir nafni Frjálsa lífeyrissjóðsins. Markmiðið með sameiningunni er að auka áhættudreifingu, ná frekari hagræðingu í rekstri, efla eignastýringu sjóðanna, bæta þjónustu við sjóðfélaga og hámarka lífeyrisréttindi þeirra.

Við sameininguna munu eignir 4 þúsund sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur, sem nema um 2,9 milljörðum kr., flytjast í tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins. Heildarstærð tryggingadeildar Frjálsa lífeyrissjóðsins verður um 10 milljarðar kr. m.v. síðustu áramót og fjöldi sjóðfélaga sem eiga réttindi í tryggingadeild verður um 26.000. Heildarstærð séreignadeildar og tryggingadeildar Frjálsa lífeyrissjóðsins eftir sameiningu verður um 48 milljarðar kr. og heildarfjöldi sjóðfélaga um 37 þúsund m.v. síðustu áramót.

 

Tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur vaxið mikið á sl. þremur árum, eða úr 1,9 milljörðum í 10 milljarða eftir sameiningu. Fjöldi sjóðfélaga tryggingadeildar hefur einnig vaxið mikið sl. þrjú ár eða úr 12 þúsund í 26 þúsund eftir sameiningu. Samhliða þessari stækkun hefur tryggingafræðileg staða sjóðsins verið mjög sterk, en um áramótin voru eignir umfram heildarskuldbindingar 7,3% og tvisvar hefur verið greiddur bónus úr tryggingadeild í séreign sjóðfélaga. Ávöxtun tryggingadeildar Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur jafnframt verið mjög góð sl. 3 ár, eða 15,9% nafnávöxtun á ársgrundvelli.

 

Í Bolungarvík verður líkt og áður starfandi fulltrúi sem mun veita sjóðfélögum Frjálsa lífeyrissjóðsins í Bolungarvík upplýsingar um lífeyrismál og lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Á heimasíðu sjóðsins verður jafnframt hægt að finna víðtækar upplýsingar um sjóðinn og lífeyrismál. Auk þess geta sjóðfélagar séð þar upplýsingar um iðgjöld, lífeyri og áunnin réttindi. Allir sjóðfélagar fá tvisvar á ári send yfirlit yfir hreyfingar og réttindi auk fréttabréfs um starfsemi sjóðsins.

 

Sameiningin er gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun sjóðanna og að tillögur um breytingar á samþykktum sjóðanna sem lúta að sameiningu þeirra verði
samþykktar á ársfundum sjóðanna.