Lífeyrissjóður bankamanna hefur stefnt Landsbanka Íslands hf. og til vara fjármála- og viðskiptaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins vegna bakábyrgðar á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna Landsbankans. Þess er krafist að bakábyrgðin verði talin í fullu gildi, en reglum um lífeyrissjóðinn var breytt í árslok 1997, eða til vara að sjóðurinn fái greiddar skaðabætur að upphæð rúmir 2,6 milljarðar króna vegna áranna frá 1998 til ársloka 2004. Má gera ráð fyrir að málið varði hagsmuni um þrjú þúsund núverandi og fyrrverandi starfsmanna Landsbankans.
Aðalkrafa Lífeyrissjóðs bankamanna er sú að Landsbankinn ábyrgist auknar lífeyrisskuldbindingar samfara verulegum launahækkunum í bankanum. Slík ábyrgð var fyrir hendi til ársins 1997 þegar stjórnvöld breyttu bankanum í hlutafélag og telur lífeyrissjóðurinn að sú ábyrgð sé enn í gildi. Til vara krefst Lífeyrissjóður bankamanna 2,6 milljarða króna skaðabótagreiðslu til þess að mæta auknum þunga lífeyrisgreiðslna. Vonir stóðu til þess að viðræður við forsvarsmenn Landsbankans s.l. vor skiluðu árangri, en af því hefur ekki orðið og af þeim sökum stefnir sjóðurinn bankanum nú.
Vandi lífeyrissjóðsins felst einkum í því að laun bankamanna hafa hækkað verulega eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir. Lífeyrisskuldbindingar í hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna miðast við þau laun sem bankamaður hefur við starfslok. Iðgjaldagreiðslur Landsbankans og starfsmanna frá fyrri tíð hrökkva því hvergi nærri fyrir lífeyrisgreiðslum sem taka mið af mun hærri launum en ráð var fyrir gert í útreikningum 1997 og 1998.
Landsbankanum er stefnt þar sem um 75 prósent umræddra skuldbindinga snerta bankann og starfsmenn hans fyrr og nú.