Komið hefur í ljós að Fjármálaeftirlitið telur að innheimta lífeyrissjóðanna á stéttarfélagsgjöldum kunni að brjóta í bága við ákvæði laga um starfsemi lífeyrissjóðanna og hefur því Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis talið rétt að kveðið sé á um þessa innheimtu með skýrum hætti í lögunum. Lífeyrissjóði er heimilt að stofna til samstarfs við þá aðila sem standa að sjóðnum um innheimtu iðgjalda fyrir þá samhliða innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda. Slík innheimta má ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir lífeyrissjóðinn. Innheimta þessi hefur verið framkvæmd í áratugi og helgast fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum, enda eru þessi gjöld innheimt samhliða lífeyrissjóðsiðgjöldum og reiknast þau almennt af sama stofni og iðgjöld til lífeyrissjóðanna.
Við setningu laga nr. 129/1997 hafði sú framkvæmd staðið í áratugi að fjölmargir lífeyrissjóðir landsins önnuðust innheimtu gjalda fyrir stéttarfélög sem stóðu að viðkomandi lífeyrissjóði. Voru það fyrst og fremst hagkvæmisástæður sem lágu að baki þeirri tilhögun, enda eru þessi gjöld innheimt samhliða lífeyrissjóðsiðgjöldum og reiknast þau almennt af sama stofni og iðgjöld til lífeyrissjóðanna. Er hagræðið af þeirri tilhögun fyrir atvinnulífið augljóst. Með lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda var hvoru tveggja fjallað um skyldu vinnuveitenda til að halda eftir lífeyrissjóðsiðgjöldum, sbr. 2. gr. laganna, svo og stéttarfélagsiðgjöldum og fleiri gjöldum til stéttarfélaga, sbr. 6. gr. þeirra. Þá var í 8. gr. laganna öllum þessum gjöldum veittur réttur til forgangs í þrotabúi vinnuveitenda. Hafði það þau áhrif að festa þessa tilhögun innheimtunnar frekar í sessi. Hefur þessi framkvæmd þróast í tímans rás og tölvukerfin sem halda utan um innheimtuna tekið breytingum með hliðsjón af þessari innheimtu.
Framangreind innheimta lífeyrissjóðanna var því alþekkt á þeim tíma er lög nr. 129/1997 voru sett, enda um almenna framkvæmd að ræða. Höfundar frumvarpsins að lögunum þekktu þessa innheimtu lífeyrissjóðanna en margir þeirra störfuðu á vettvangi stéttarfélaga og samtaka þeirra eða samtaka vinnuveitenda eða störfuðu sem lögfræðingar á því sviði. Þá var löggjafanum almennt fullkunnugt um þessa tilhögun. Hvergi er í frumvarpinu vísað til þess að með setningu laganna standi til að breyta henni eða að lífeyrissjóðum skuli ekki lengur heimilt að annast þessa innheimtu fyrir stéttarfélögin samhliða innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda.
Tilgangur 20. gr. laga nr. 129/1997 er fyrst og fremst sá að tryggja að lífeyrissjóðir hafi ekki á hendi aðra starfsemi sem bakar þeim kostnað eða hefur í för með sér aðra áhættu en tengist lífeyrissjóðs-rekstrinum beint. Kostnaður lífeyrissjóðanna af innheimtu fyrir stéttarfélögin er greiddur af stéttar-félögunum og halda þau sjóðunum alveg skaðlausum hennar vegna.
Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar að stéttarfélagsinnheimta lífeyrissjóðanna væri ekki heimil samkvæmt lífeyrissjóðalögunum og því þótti Landssamtök lífeyrissjóða rétt að beita sér fyrir því að ákvæði yrðu sett í lífeyrissjóðalögin sem tækju af öll tvímæli um lögmæti þess að lífeyrissjóðir gætu innheimt stéttarfélagsgjöld fyrir lífeyrissjóðina. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis tók mjög vel í þessa málaleitan Landssamtaka lífeyrissjóða og afgreiddi samhljóða tillögu til breytinga á lífeyrissjóðalögunum í þessa veru. Tillagan var samþykkt mótatkvæðalaust í 2. umræðu á Alþingi og bíður nú lokaafgreiðslu þingsins, sem verður innan tíðar.