Lífeyrissjóðirnir þurfa að gæta hlutleysis í viðskiptaátökum.

Á fundi LL fyrir skömmu um aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun og rekstri fyrirtækja flutti Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, athyglisvert erindi. Í erindi Ara kom fram að lífeyrisréttindi landsmanna væru hluti af umsömdum starfskjörum. Ástæða væri til þess fyrir lífeyrissjóðina að setja reglur um hvort og þá hvenær nauðsynlegt kynni að vera fyrir sjóði að hafa áhrif sem hluthafar í stjórnun og við stjórnarkjör í fyrirtækjum sem þeir hafa fjárfest í. Sjóðirnir þurfi hins vegar að gæta hlutleysis í viðskiptaátökum.

Lífeyrissjóðirnir verði hins vegar stærðar sinnar vegna á íslenskum verðbréfamarkaði að taka tillit til heildarhagsmuna við fjárfestingarákvarðanir sínar.

Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða væru að finna skýr lagafyrirmæli um hámarkseign í hlutabréfum. Þau væru þessi:

  • 50% hámark í hlutabréfum, samtals í innlendum og erlendum.
  • 15% hámark í hlutafé sama fyrirtækis.
  • 25% hámark í verðbréfasjóði.
  • 10% hámark í óskráðum hlutabréfum.

 Staða og umfang lífeyrissjóða á innlendum hlutabréfamarkaði væri þessi:

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu um 677 milljarðar króna um síðustu áramót og þar af væru 25 stærstu lífeyrissjóðirnir með um 93% af heildareignunum. Innlend hlutabréfaeign sjóðanna væri um 59 milljarðar króna eða um 12,4% af 477 milljarða króna markaðsvirði hlutabréfa á aðallista Kauphallarinnar.

 Ari nefndi nokkra möguleika til virks aðhalds lífeyrissjóða að hlutafélögum. Setja þyrfti skýrar kröfur um arðsemi fyrirtækja, taka þyrfti upp reglulegar viðræður við stjórnendur fyrirtækja, gagnrýni á fundum, samanburður við önnur fyrirtæki, þátttaka í atkvæðagreiðslum, m.a. stjórnarkjöri eftir ákveðnum reglum o.s.frv.

 Þá nefndi Ari nokkra kosti og galla beinnar stjórnunarþátttöku lífeyrissjóða að fyrirtækjum, m.a. að það væri galli að eftirlit stjórnarmanna gæti skapað vanhæfnisvandamál og veikt stöðu gagnvart rekstrarlegum ákvörðunum fyrirtækjanna. Kostirnir væru hins vegar þeir að með beinni stjórnunarþátttöku væru sjóðirnir að gæta eigna sinna og koma í veg fyrir óeðlilegt áhrif meðeigenda, þar sem sjóðirnir væru virkir hluthafar.

Að lokum gat Ari þess að lífeyrissjóðirnir þurfi að gæta hlutleysis í viðskiptaátökum og þeir þurfi frekar að vera aðhaldsgjafar fremur en stýrigjafar. Einnig þurfi að skilgreina kröfur sjóðanna til fjárfestinga í hlutafélögum.