Lífeyrissjóðirnir stórtækir í lánveitingum til íbúðakaupa.

Í umræðum um lánveitingar til fasteignaviðskipta hefur einatt verið vitnað til samdráttar í lánveitingum bankanna til fasteignakaupa og mikilvægis Íbúðalánasjóðs.
Mikilvægt hlutverk lífeyrissjóðanna hefur gjarnan gleymst í umræðunni um fasteignamarkaðinn. Bæði eru þeir þýðingarmikil uppspretta fjármagns til Íbúðalánasjóðs með kaupum íbúðabréfa og jafnframt hafa þeir um áratugi verið stórir lánveitendur á fasteignamarkaði með lánveitingum til sjóðfélaga.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa gert könnun hjá stærstu lífeyrissjóðum landsins um lánveitingar þeirra til sjóðfélaga á fyrstu 7 mánuðum ársins. Þeir hafa samtals lánað 14 milljarða króna til sjóðfélaga á þessum tíma sem er umtalsverð fjárhæð í samanburði við lánveitingar Íbúðalánasjóðs sem námu 33 milljörðum á sama tímabili. Af þessum tölum má glöggt sjá að lánveitingar lífeyrissjóðanna hafa sem fyrr mikilvægu hlutverki að gegna í viðskiptum með fasteignir landsmanna á sama tíma og viðskiptabankar og sparisjóðir hafa dregið verulega úr lánum til fasteignakaupa.