HS Orka hf. hefur tilkynnt Kauphöllinni um sölu Magma Sweden á 25% hlut í HS Orku hf. til Jarðvarma slhf. sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða. Áður hafði verið getið um mögulega samninga á milli aðila þann 18. apríl 2011 og nú hefur verið skrifað undir samninga um kaupin. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Kaupverð er 8,06 milljarðar króna. Jarðvarmi mun halda kauprétti til kaupa á frekari hlutum á félaginu til 10. febrúar 2012. Félagið getur þá aukið hlut sinn um 8,4% í HS Orku fyrir 4,7 milljarða króna. Magma Sweden hefur einnig skrifað undir samning við fjögur sveitarfélög um kaup á hlutum í HS Orku fyrir 475 milljónir króna. Þeim viðskiptum mun ljúka fyrir 9. júní næstkomandi, samkvæmt tilkynningu til Kauphallar. Í tilkynningu á vef Alterra Power Corp (áður Magma Energy) kemur fram að hluturinn nemur 1,5%.
Tilkynning til Kauphallar:
„Áður hafði verið getið um mögulega samninga á milli aðila þann 18. apríl 2011 og nú hefur verið skrifað undir samninga um kaupin. Samkvæmt samningi mun Magma Sweden selja 25% hlut af 98,5% hlut sínum í HS Orku til Jarðvarma slhf. fyrir 8,06 milljarða ISK (u.þ.b. 69,8 milljónir USD). Gert er ráð fyrir að viðskiptunum verði lokið fyrir 2. júní 2011.
Saga Fjárfestingarbanki var ráðgjafi Magma Sweden við samningagerð og Arctica Finance var ráðgjafi kaupanda.
Magma Sweden hefur einnig skrifað undir samning við fjögur sveitarfélög um kaup á hlutum í HS Orku fyrir 475 milljónir ISK (u.þ.b. 4,1 milljónir USD). Þeim viðskiptum mun ljúka fyrir 9. júní 2011.
Þegar viðskiptum þessum verður lokið mun Magma Sweden eiga 75% hlut í HS Orku hf og 25% verða í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða í gegnum félag þeirra Jarðvarma.
Jarðvarmi mun halda kauprétti til kaupa á frekari hlutum í félaginu til 10. febrúar 2012. Verði þeir kaupréttir nýttir getur Jarðvarmi aukið hlut sinn um 8,4% fyrir 4,7 milljarða ISK og verður hlutur þeirra í HS Orku þá 33,4%. Samið hefur verið um minnihlutavernd Jarðvarma er varðar stærri ákvarðanir á vegum félagsins og skipan fulltrúa þeirra í stjórn, svo framarlega sem Jarðvarmi heldur á a.m.k. 22,5% hlut í HS Orku.“