Lífeyrissjóðir flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta með því að kaupa skuldabréf fyrir 88 milljarða króna

Stjórnir 26 íslenskra lífeyrissjóða hafa samþykkt að kaupa ríkistryggð skuldabréf af Seðlabanka Íslands fyrir um 88 milljarða króna. Þetta var upplýst á sameiginlegum fréttamannafundi Seðlabanka Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða í morgun.

 

Fram kemur í tilkynningu sem fundarboðendur birtu að annars vegar væri um að ræða bréf sem Íbúðalánasjóður gaf út á sínum tíma og Landsbanki Íslands setti inn í Avens B.V., félag sem bankinn stofnaði árið 2008. Bréfin voru notuð þar sem veð fyrir lánum frá Seðlabankanum í Luxemborg. Hins vegar kaupa lífeyrissjóðirnir skuldabréf sem ríkissjóður Íslands og Seðlabanki eignuðust í kjölfar bankahrunsins.


Seðlabanki Íslands náði á dögunum fullum yfirráðum yfir eignum Avens, með samningi við skiptastjóra Landsbankans í Luxemborg og við seðlabanka Luxemborgar.
Samkomulagið er mikilvægt skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta á Íslandi, enda var Avens stærsti einstaki, erlendi eigandi skuldabréfa í íslenskum krónum.
Seðlabanki Íslands bauð lífeyrissjóðum að kaupa skuldabréf úr „pakkanum frá Luxemborg“ og önnur skuldabréf. Bréfin eru verðtryggð, að jafnaði til níu ára og ávöxtunarkrafan er 7,2%.


Forystusveit Landssamtaka lífeyrissjóða fjallaði um málið nú um helgina ásamt framkvæmdastjórum lífeyrissjóða. Þá var einnig efnt á sama tíma til stjórnarfunda í lífeyrissjóðunum.


Í gær, sunnudag, varð síðan að samkomulagi að 26 sjóðir kaupi skuldabréf af Seðlabanka Íslands fyrir 88 milljarða króna.
Af hálfu Seðlabanka var sett það skilyrði að lífeyrissjóðir fjármögnuðu kaupin með evrum. Lífeyrissjóðirnir selja því erlendar eignir sem nemur fjárfestingunni. Þess má geta að erlendar eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 554 milljörðum króna í lok marsmánaðar 2010.


Kjörin  á þessum skuldabréfum, sem lífeyrissjóðirnir kaupa, eru betri en bjóðast hér á markaði. Vissulega draga lífeyrissjóðir tímabundið úr dreifingu áhættu í fjárfestingum við að losa um erlendar eignir sínar og flytja fjármuni hingað til lands. Á hinn bóginn flýtir þessi mikla fjárfesting fyrir því að afnema gjaldeyrishöftin. Síðast en ekki síst er ávöxtunarkrafa skuldabréfanna umtalsvert hærri en miðað er við í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóða. Því má ætla að viðskiptin muni bæta tryggingafræðilega stöðu íslenska lífeyriskerfisins um 1-2%.

 

Seðlabanki Íslands sendi frá sér ítarlega tilkynningu um málið í morgun. Hún er svohljóðandi í heild sinni:


Seðlabanki Íslands hefur fyrir hönd ríkissjóðs náð samkomulagi við 26 lífeyrissjóði um kaup þeirra á íbúðabréfum í eigu ríkissjóðs. Ríkissjóður og Seðlabankinn eignuðust bréfin meðal annars með samningum við Seðlabanka Lúxemborgar og skiptastjóra Landsbankans í Lúxemborg 18. maí síðastliðinn. Heildarnafnverð bréfanna er 90,2 ma.kr. Salan er gerð með það fyrir augum að auka gjaldeyrisforðann. Jafnframt lækkar hún hreina skuld ríkissjóðs í erlendri mynt sem hafði aukist vegna fjármögnunar áðurnefndra samninga í Lúxemborg. Samkvæmt samkomulaginu munu lífeyrissjóðirnir selja erlendar eignir og greiða fyrir bréfin í evrum, alls um 549 milljónir evra. Við þessi viðskipti eykst gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands um 82 milljarða króna (512 milljónir evra) eða sem nemur 17%.


Salan fór fram í lokuðu útboði sem lauk í gær, 30. maí, en þar var öllum almennu lífeyrissjóðunum í landinu boðin þátttaka. Ekki var unnt að koma við opnu útboði vegna flókinna skilyrða og fyrirvara sem fylgja sölunni, svo sem varðandi óvissa afhendingu. Þá var nauðsynlegt að flýta samningum til að eyða óvissu og mögulegum markaðsáhrifum sem óhjákvæmilega leiða af sölu á svo miklu magni íbúðabréfa.


Lífeyrissjóðirnir voru valdir til að taka þátt í þessu lokaða útboði þar sem þeir eru fyrir stærstu eigendur húsbréfa, enda falla þau vel að fjárfestingarstefnu þeirra og skuldbindingum. Þeir eiga umtalsverðar erlendar eignir og stuðla með þátttöku sinni í viðskiptunum að því að skapa betri skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Lífeyrissjóðirnir þóttu henta vel til að mæta þörfum Seðlabankans við að ljúka viðskiptunum á skömmum tíma, en það dregur verulega úr óvissu og áhrifum þessara stóru viðskipta á innlendan skuldabréfamarkað. Þar sem lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar mun það gera Seðlabankanum auðveldara fyrir þegar hafist verður handa við næstu skref í afnámi gjaldeyrishaftanna.


Þessi viðskipti eru meðal annars af ofangreindum ástæðum mikilvægur áfangi í áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta. Eins og áður hefur komið fram minnka krónueignir erlendra aðila um allt að fjórðung með kaupunum á Avens B.V., en með þessum viðskiptum styrkist erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins umtalsvert sem er mjög mikilvægur liður í efnahagsáætlun stjórnvalda.

Bréfin verða seld á fastri ávöxtunarkröfu, 7,2%. Nafnverð þeirra bréfa sem eru seld er sem hér segir:

Íbúðabréf  -   nafnverðseiningar


HFF150914   -   7.215.500.000
HFF150224   -   14.431.000.000
HFF150434   -   34.273.625.000
HFF150644   -   34.273.625.000

Lífeyrissjóðirnir munu greiða fyrir eignirnar í erlendum gjaldeyri á skráðu kaupgengi Seðlabanka Íslands. Þessi fjárfesting telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga um gjaldeyrismál.


Viðskiptin munu ekki breyta þeim áætlunum sem þegar liggja fyrir um útgáfu markaðshæfra ríkisverðbréfa.


Þau viðskipti sem nú hafa náðst ásamt þeim samningum sem gerðir voru varðandi eignir Avens B.V. í Lúxemborg 18. maí síðastliðinn hafa áhrif á skuldastöðu þjóðarbús og ríkissjóðs, auk þess sem erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins batnar verulega. Í fyrsta lagi lækka bæði heildarskuldir og hreinar skuldir þjóðarbúsins um rúmlega 3½% af landsframleiðslu. Heildarskuldir ríkissjóðs í erlendri mynt aukast hins vegar sem nemur rúmlega 3½% af landsframleiðslu en á móti batnar gjaldeyrisstaða ríkissjóðs og Seðlabanka samtals um sem nemur 5½% af landsframleiðslu. Með þessum viðskiptum má líta svo á að ríkisjóður hafi fjármagnað sig á kjörum sem jafngilda 0,75% föstum vöxtum til 15 ára.


Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við þetta tækifæri: „Þetta samkomulag greiðir fyrir afnámi gjaldeyrishafta en undirstrikar um leið þann mikla styrk sem felst í því fyrir Ísland að hafa svo öfluga lífeyrissjóði sem raun ber vitni. Þeir hafa með þátttöku sinni lagt þungt lóð á vogaskálar þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem nú stendur yfir hér á landi.“