Fjármögnun á lokafrágangi við síðustu áfanga öryggisíbúða hjúkrunarheimilisins Eirar við Fróðengi í Grafarvogi er lokið. Alls nam lánsfjárhæðin um ellefu hundruð milljónum króna og kemur fjármagnið frá lífeyris- sjóðum landsins.
Eir á 110 öryggisíbúðir við Fróðengi. Fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun seint á síðasta ári og þær síðustu verða teknar í notkun síðar á þessu ári. Við fjármögnun lokaáfanganna fól Eir verðbréfafyrirtækinu Virðingu hf. að útvega lánsfjármagn og fékk fyrirtækið Lífeyrissjóð verslunar- manna, Sameinaða lífeyrissjóðinn, Stafi lífeyrissjóð og veðskuldabréfasjóðinn Virðingu, sem m.a. er í eigu sjö lífeyrissjóða, til að lána til framkvæmdanna.
Aðkoma lífeyrissjóðanna
Að sögn Kristjáns Arnar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir leggi sín lóð á vogaskálarnar við áframhaldandi uppbyggingu íbúða fyrir aldraða svo þeir geti á hverjum tíma búið við sem bestar aðstæður.
Hjúkrunarheimilið Eir
Hjúkrunarheimilið Eir sinnir fjölþættri þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu og er það meðal stærstu hjúkrunarheimila landsins. Hjá Eir eru rými fyrir 155 heimilismenn auk tólf endurhæfingarrýma og sex skammtímarýma. Einnig starfrækir Eir 24 dagdeildarpláss fyrir einstaklinga með greinda heilabilun. Þá rekur Eir öryggisíbúðir á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Auk íbúðanna 110 við Fróðengi rekur hjúkrunarheimilið 37 íbúðir í Eirarhúsum við Hlíðarhús 3-5 og 58 íbúðir við Eirhamra 2 í Mosfellsbæ.
Sigurður H. Guðmundsson forstjóri Eirar segist meta mikils aðkomu lífeyrissjóðanna að þessu máli og kann þessum aðilum bestu þakkir fyrir. „Fjármögnunin tryggir að hægt sé að ljúka við öryggisíbúðir sem Eir hefur verið að byggja í Grafarvogi á síðustu misserum,“ segir Sigurður.