Lífeyrissjóðakerfi Íslands og Danmerkur hagkvæmust í OECD

Ísland og Danmörk koma best út þegar borin er saman hagkvæmni lífeyrissjóðakerfa í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, og miðað við rekstrarkostnað lífeyrissjóða í hlutfalli af heildareignum. Þetta kemur fram í úttekt á stöðu og starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem Capacent var falið að vinna að.  Niðurstaðan var kynnt á aðalfundi sjóðsins í gærkvöld, en úttekt Capacent staðfestir traustan rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Capasent dregur í úttektinni saman margvíslegan fróðleik um stöðu íslenska lífeyriskerfisins í alþjóðlegum samanburði og kemst að þeirri niðurstöðu að þótt ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi verið slæm á árinu 2008 sé hún „ekki jafnafleit og búast hefði mátt við eftir efnahagslegt hrun á Íslandi.“ Þannig var raunávöxtun lífeyrissjóða í OECD að jafnaði neikvæð um 23% fyrstu tíu mánuði ársins 2008. Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var á sama tíma neikvæð um 25%, raunávöxtun bandarískra lífeyrissjóða var neikvæð um 26% og írskra sjóða  neikvæð um 33%.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna óskaði eftir úttekt Capacent í kjölfar harkalegrar gagnrýni á sjóðinn og starfsemi hans í umræðum á vettvangi Verslunarmannafélags Reykjavíkur í vetur. Í niðurstöðum Capacent segir að samanburður við aðra lífeyrissjóði sé Lífeyrissjóði verzlunarmanna hagstæður. Orðrétt eru helstu niðurstöður Capacent dregnar saman þannig:

„Árið 2008 var raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna -24,0% en raunávöxtun allra íslensku sjóðanna var léleg. Þrátt fyrir það var fimm ára meðalraunávöxtun sjóðsins 2,5% og 4,1% ef litið er til síðustu tólf ára. Þessi meðaltöl eru betri en flestra annarra sjóða og ekki fjarri því sem skuldabréfasjóðir hafa skilað yfir sömu tímabil, þótt afrakstur fjárfestingarleiðanna sé misjafn frá ári til árs.

Ekki eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð sjóðsins varðandi fjárfestingarstefnu, innri endurskoðun, ytri endurskoðun eða tryggingafræðilegt uppgjör.

Í heildina er samanburður við aðra íslenska lífeyrissjóði Lífeyrissjóði verzlunarmanna hagstæður. Ávöxtun eigna stenst samanburð, vinnubrögðin eru góð og kostnaður lægri en almennt gerist.“

·       Niðurstöður Capacent-skýrslunnar um Lífeyrissjóð verzlunarmanna í heild sinni