Lífeyrisgreiðslur til látinna Grikkja

Þúsundir Grikkja hafa fengið greiddan lífeyri frá ríkinu löngu eftir að þeir fóru undir græna torfu til eilífðar. Þetta er eitt af mörgum dæmum um brotalamir í opinberri stjórnsýslu í Grikklandi, sem pirrar ekki síst ráðamenn Evrópusambandsins og aðra þátttakendur í björgunaraðgerðum vegna grísku fjármálakreppunnar.

 

Þjóðskrá Grikklands er ekki áreiðanlegri en svo að minnst 4.500 fyrrum starfsmenn ríkisins voru þar skráðir lifandi en eru látnir. Aðstandendur höfðu ekki hirt um að tilkynna um andlátið og í hverjum mánuði bárust viðkomandi lífeyrisgreiðslur frá ríkinu. Ráðherra vinnumála, Louka Katseli, segir að ríkissjóður hafi greitt ranglega af þessu sökum að minnsta kosti 16 milljónir evra á ári.

 

Óvíst er að öll sagan sé hér með sögð því þegar farið var að kanna tölvugögn vegna lífeyrisgreiðslna úr ríkissjóði blasti við að sláandi margir Grikkir væru orðnir 100 ára og eldri. Þetta þótti grunsamlegt og því athugunarefni. Þegar síðast spurðist stóð til að kanna hvort allir þessir aldurhnignu Grikkir væru raunverulega til og þá ofan jarðar eða hvort þeir væru komnir á þann stað tilverunnar sem útilokað er að þeir geti notið lífeyris að neinu leyti.