Landssamtök lífeyrissjóða vilja fresta gildistöku laga um innlend verðbréfalán.

Landssamtök lífeyrissjóða telja eðlilegt að gildistöku ákvæða vegna heimilda
lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána  verði frestað. Í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum og undirbúnings af hálfu sjóðanna, m.a. vegna breytinga á fjárfestingastefnum þeirra telja Landssamtök lífeyrissjóða  eðlilegt að sjóðunum gefist nægur tími til að mæta þessum auknu heimildum sem gera lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í viðskiptum á skipulögðum lánamarkaði með innlend verðbréf.
Þessi sjónarmið Landssamtaka lífeyrissjóða koma fram í umsögn samtakanna til Efnahags- og skattanefndar Alþingis.

Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er á þessa leið:

Efnahags- og skattanefnd Alþingis hefur með bréfi til Landssamtaka lífeyrissjóða, dags. 10. apríl s.l., óskað eftir umsögn um frumvarp tillaga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, 528. mál. 

Í athugasemdum með frumvarpinu er þess getið að meginbreytingin felist í því að lífeyrissjóðum verði nú heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Nokkrar aðrar  breytingar eru einnig lagðar til, sem stefna að auknum sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris, auk nokkurra smærri breytinga.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa farið yfir umrætt frumvarp og gera engar athugasemdir við þær breytingar sem lagðar eru til í 1.gr. til 5. gr. frumvarpsins. Allar þær breytingar eru í samræmi við tillögur Landssamtaka lífeyrissjóða, sem kynntar voru fjármálaráðuneytinu s.l. haust.

Hvað snertir 6.gr. frumvarpsins  er varðar breytingar á 36. gr. lífeyrissjóðalaganna, einkum um heimildir lífeyrissjóða til verðbréfalána, skal eftirfarandi sérstaklega tekið fram.

Landssamtök lífeyrissjóða réðust í ítarlega úttekt á þeim reglum sem gilda um fjárfestingar- heimildir lífeyrissjóða og mótun fjárfestingarstefnu fyrir sjóðina. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var sú að þær breytingar sem gerðar hafa verið fyrir tilstuðlan samtakanna frá gildistöku lífeyrissjóðalaganna hafa gefist vel og verið til þess fallnar að gera sjóðunum fært að ná betri ávöxtun á eignir sjóðanna en ella hefði orðið.

 Niðurstaða af framangreindri úttekt var jafnframt sú að gerðar voru tillögur að tilteknum breytingum á gildandi reglum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða sem lúta að afmörkuðum en mikilvægum þáttum í fjárfestingarheimildum sjóðanna. Í þeirri úttekt var ekki að finna ákvæði um heimildir til lífeyrissjóða til verðbréfalána.

 Jafnframt var kynnt sú hugmynd að færa einstakar takmarkanir inn í reglugerð en hafa grundvallarreglur áfram í lögum, með það að markmiði að gera löggjafanum og framkvæmdavaldinu betur kleift að fylgja eftir þróun á fjármálamörkuðum og mæta þörf sjóðanna fyrir þróun reglna um fjárfestingarheimildir í framtíðinni.

 Landssamtök lífeyrissjóða hafa kynnt fjármálaráðuneytinu þá afstöðu sína að mikilvægt sé að rýmka reglur lífeyrissjóðanna varðandi fjárfestingarheimildir þeirra. Þó svo að þessar tillögur hafi að sinni ekki náð fram að ganga er þó ljóst að megintilgangur frumvarpsins um heimildir sjóðanna um verðbréfalán er til rýmkunar á fjárfestingarheimildum sjóðanna.

 Landssamtök lífeyrissjóða mæla með samþykki frumvarpsins, en telja þó eðlilegt að gildistöku ákvæða vegna heimilda lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána  skv. 6. gr. verði frestað. 

 Í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum og undirbúnings af hálfu sjóðanna, m.a. vegna  breytinga á  fjárfestingastefnum þeirra er eðlilegt að sjóðunum gefist nægur tími til að mæta þessum auknu heimildum sem gera lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í viðskiptum á skipulögðum lánamarkaði með innlend verðbréf.