Það er því skoðun Landssamtaka lífeyrissjóða að frekar beri að stuðla að auknum langtímasparnaði almennings, heldur en að draga úr honum og minnka þannig þá hvatningu, sem nú er í lögum um tryggingagjald.
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald. Frumvarpið fjallar um að fella niður framlag ríkisins til viðbótarlífeyrissparnaðar, sem getur hæst orðið 0,4% eða 10% af 4% iðgjaldi. Landssamtök lífeyrissjóða leggjast gegn samþykki þessara breytinga á lögunum um tryggingagjald.
Nauðsynlegt er að hafa sérstakan hvata, þannig að launamenn sjái sér hag í því að leggja til hliðar ákveðinn hluta af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað. Frekar þurfi að auka þennan hvata, heldur en draga algerlega úr honum. Þá ber þess að geta að almenn þátttaka launafólks varðandi viðbótarlífeyrissparnað dregur úr einkaneyslu og ætti þannig að hamla gegn þenslu í þjóðfélaginu.
Auk þess ber að hafa í huga að launamenn greiða tekjuskatt af viðbótarlífeyrissparnaðinum og þar með einnig af framlagi ríkissjóðs. Það er því skoðun Landssamtaka lífeyrissjóða að frekar beri að stuðla að auknum langtímasparnaði almennings, heldur en að draga úr honum og minnka þannig þá hvatningu, sem nú er í lögum um tryggingagjald.