Landsbankinn og KB banki gagnrýna fyrsta útboð íbúðabréfa.

Veruleg óánægja er hjá Landsbankanum og KB banka með fyrsta útboð íbúðabréfa. Vegvísir, markaðs- og greiningarrit Landsbankans segir að markaðsaðilar hafa beðið spenntir eftir fyrsta útboði íbúðabréfa, sem samkvæmt áætlun Íbúðalánasjóðs hafði verið áætlað um miðjan þennan mánuð. Komi þetta lokaða útboð því markaðnum í opna skjöldu þar sem aðeins tilteknum hópi fjárfesta var boðið að taka þátt í útboðinu.

 Í 1/2 5 fréttum KB banka segir að útboðið  veki  upp spurningu um verðmyndun Íbúðabréfa ef hún fer ekki fram fyrir opnum tjöldum og markaðsaðilar hafa ekki jafnan aðgang að útgáfunni.

Að mati Greiningardeildar Landsbankans er upplýsingagjöf Íbúðalánasjóðs (ÍLS) ábótavant og eru einkum tveir þættir sem má nefna í því sambandi.  Í fyrsta lagi er slæmt að ÍLS gefi ekki til kynna hvernig sjóðurinn ætli að haga aðgerðum sínum. Má t.a.m. búast við fleiri útboðum að þessu tagi?  Ef aðgerðir ÍLS koma  markaðsaðilum sífellt á óvart mun það bitna á verðmyndun bréfanna og er það öllum kunnugt að það er ekki það sem markaðurinn eða ÍLS eru að sækjast eftir. Í öðru lagi voru upplýsingar um fyrsta íbúðabréfaútboðið ófullnægjandi, t.d. var ekki gefið upp hvernig skiptingin hafi verið á milli ávöxtunarkröfu og þóknunar í útboðinu. Nauðsynlegt er að ÍLS gefi nánari upplýsingar um útboðið svo aðrir markaðsaðilar geti betur gert sér grein fyrir stöðu mála, t.d. hvort einhverjar líkur séu á því að erlendir fjárfestar hafi fengið íbúðabréfin á góðum kjörum og muni því reyna að hagnast á þeim við fyrsta tækifæri.

Auk þess gerir Greiningardeild Landsbankans athugasemd við að ÍLS hafi ákveðið að semja við einn af viðskiptavökunum fimm um þetta ákveðna útboð því það leiði til að viðkomandi viðskiptavaki búi yfir meiri upplýsingum en aðrir. Þetta ójafnræði í upplýsingagjöf til viðskiptavaka geti leitt til þess að verðmyndun með íbúðabréfin verði óskilvirkari, sem sé þvert á það sem að ÍLS stefni að m.a. með skráningu bréfanna í erlendu uppgjörskerfi.

Í 1/2 5 fréttir KB banka segir að fyrsta útboði Íbúðalánasjóðs hafi lokið í gær og að sjóðurinn hafi ákveðið að halda lokað útboð. Seldir voru 5 milljarðar af Íbúðabréfum með gjalddaga eftir 40 ár en ávöxtunarkrafa ásamt þóknun var 3,91%. Sjóðurinn samdi við Deutsche Bank í London og Íslandsbanka í London. Sú spurning hljóti  óneitanlega að vakna af hverju ávöxtunarkrafan er 7 punktum yfir markaðsvöxtum og verðið þar af leiðandi undir markaðsverði.

Ánægjulegt sé að útboðsferlið sé nú loks hafið. Hins vegar veki þetta upp spurningu um verðmyndun íbúðabréfa ef hún fer ekki fram fyrir opnum tjöldum og markaðsaðilar hafi ekki jafnan aðgang að útgáfunni. Mikið starf hafi verið unnið á undanförnum árum til að fá fleiri aðila að markaðnum og bæta þannig verðmyndun á bréfum Íbúðalánasjóðs og þar með vaxtakjör til almennings. Þessir starfshættir séu ekki í anda þess starfs.