Lagðar til grundvallarbreytingar á eftirlaunagreiðslum þingmanna og ráðherra.

Frumvarp um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara var lagt fram á Alþingi í gær, en þar er m.a. gert ráð fyrir að eftirlaunaréttur forsætisráðherra styrkist til jafns við embætti forseta Íslands, eftirlaunaréttur ráðherra er rýmkaður, formenn stjórnmálaflokka, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, fái 50% álag á þingfararkaup og álag sem formenn þingflokka, varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda fá hækkar úr 15% í 20%.

Í greinargerð segir að með frumvarpinu sé steypt saman í einn bálk lagaákvæðum um eftirlaun æðstu hand hafa þriggja þátta ríkisvaldsins, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Jafnframt sé gerð sú grundvallarbreyting að eftirlaunagreiðslur fyrir þessi æðstu störf í þjóðfélaginu komi beint úr ríkissjóði í stað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins og verið hefur.

 Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu eru þessar:

    a.      Réttindaávinnsla alþingismanna verður jöfn á hverju þingári, 3%, en ekki breytileg frá 1,7% upp í 5% eins og nú er. Hámark, 70%, er óbreytt.
    b.      Réttindaávinnsla ráðherra er óbreytt, 6% á hverju ári í embætti, en hámark er fært til samræmis við rétt þingmanna, þ.e. í 70%, í stað 50% eins og nú er.
    c.      Almennur lífeyrisaldur fyrir alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara er óbreyttur, 65 ár. Sérregla hefur gilt um alþingismenn sem eru að hætta á þingi, þ.e. 61 árs aldur. Það aldursmark er lækkað um eitt ár og látið gilda líka um ráðherra sem þá láta af störfum.
    d.      Hin svokallaða „95-ára-regla“ fyrir alþingismenn er afnumin enda hefur hún lítið gildi eftir þær breytingar sem frumvarpið kveður á um.
    e.      Myndaður er sérstakur réttur fyrir alþingismenn og ráðherra, sem gegnt hafa forustuhlutverki í stjórnmálum um langan tíma, til að hverfa af vettvangi þjóðmála og fara á eftir laun fyrr en annars er heimilt í stað þess að leita sér starfs á vinnumarkaði. Eru mörkin sett við alþingismenn sem setið hafa 16 ár hið minnsta á Alþingi og ráðherra sem gegnt hafa embætti í a.m.k. sex ár.  Jafnframt eru sett ákvæði sem skerða þessar greiðslur fram að 65 ára aldri ef sá sem þeirra nýtur tekur við öðru starfi. Er m.a. haft í huga að þessi skipan mála geti auðveldað eðlilega endurnýjun í stjórnmálum og dregið úr þeirri tilhneigingu að fyrrverandi forustumenn á þeim vettvangi sæki í embætti í stjórnkerfinu til þess að ljúka starfsferli á viðunandi hátt.
    f.      Sett eru sérákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Réttindaávinnsla og hlutfall verður hið sama og hjá forseta Íslands en fyrirkomulag eftirlaunaréttarins verður að öðru leyti svip að og hjá öðrum ráðherrum.
    g.      Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995, í því skyni að jafna aðstöðu formanna stjórnmálaflokkanna þannig að þeir formenn, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, hafi álag á þingfararkaup, 50%. Ráðherralaun, sem leggjast við þingfararkaup, eru tæp 80% af þingfararkaupinu. Formenn þingflokka, varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda fá nú samkvæmt gildandi lögum 15% álag á þingfararkaupið, en samkvæmt frumvarpinu hækkar það í 20%.
    h.      Sett eru almenn ákvæði um eftirlaunarétt hæstaréttardómara. Þau fela m.a. í sér rétt fyrir dómara, sem gegnt hafa störfum í Hæstarétti í a.m.k. tólf ár, til að komast á eftirlaun nokkru fyrr en áður hefur verið tíðkað. Flestir dómarar Hæstaréttar hafa fram að þessu setið í dómnum fram yfir 65 ára aldur og hafa þá fengið lausn frá störfum „án óskar“ eins og það er orðað í dómstólalögum og haldið fullum embættislaunum til æviloka samkvæmt túlkun á 61. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu frumvarpi er ekki hróflað við þeirri framkvæmd heldur tekur það til þeirra dómara sem ekki njóta hennar.  


Sjá nánar frumvarpið