Kynjakvótar á stjórnir lífeyrissjóða hafa skilað árangri

Nú hefur tekið gildi lagaákvæði um kynjakvóta á stjórnir lífeyrissjóða. Ákvæðið hefur skilað góðum árangri í að jafna hlutfall kynjanna í stjórnum sem er afar jákvætt. Nokkrir sjóðir áttu létt með að uppfylla kröfurnar en aðrir hafa breytt samþykktum sínum. Lögin gera kröfu um að hlutfall hvors kyns í stjórnum lífeyrissjóða skuli vera að minnsta kosti 40% en það felur í sér kröfu um 50% hlutfall hvors kyns í sjóðum með 4 eða 8 stjórnarmenn.

Ákvæðið hefur náð markmiði sínu um að jafna kynjahlutföll stjórnarmanna lífeyrissjóða og má sem dæmi nefna að í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins er nú 50% hlutfall af hvoru kyni en áður sat ein kona og fimm karlmenn í stjórn sjóðsins. Í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða eiga nú sæti fimm konur og fjórir karlar sem er veruleg breyting frá því sem verið hefur. Ekki stendur til að Landssamtök lífeyrissjóða beiti sér fyrir breytingum á ákvæðinu.