Innan við helmingur fólks á almennum vinnumarkaði í Bretlandi gerir ráð fyrir því að fara á eftirlaun innan sjötugs og um þrír af hverjum fjórum, sem náð hafa 65 ára aldri, segjast ekki vita hvenær þeir geti farið á eftirlaun.
Þetta er niðurstaða kannana sem sýna áhrif efnahagssamdráttar í Bretlandi á þá sem komnir eru nálægt því að fara á eftirlaun. Kaupmáttur lífeyris hefur rýrnað í kreppunni og því hallast Bretar á eftirlaunaaldri að því að vera lengur á vinnumarkaði en ella.
Á árinu 2008 gerðu 40% Breta ráð fyrir því að fara á lífeyri frá ríkinu við 65 ára aldur en nú einungis 20%, samkvæmt niðurstöðum nýrra viðhorfskannana. Þá hefur hlufall þeirra sem gera ráð fyrir að fara snemma á eftirlaun, þ.e. á aldrinum 50-55 ára, lækkað úr 8% í 6% á aðeins einu ári.
Óvissuástand meðal Breta á eftirlaunaaldri er sláandi sem sést best á því að í fyrra voru aðeins þrír af hundraði þeirra, sem náð höfðu 65 ára aldri, óvissir um hvenær þeir myndu hætta að vinna en nú er þetta hlutfall sem sagt komið upp í þrjá af hverjum fjórum!
Viðhorfskönnuðirnir frá fyrirtækinu Barings segja að ungt fólk á breskum vinnumarkaði eigi að draga ályktanir af niðurstöðum þessara kannana út fá eigin hagsmunum. Yngstu kynslóðirnar eigi að hefja undirbúning eftirlaunaskeiðs síns þegar í stað. Margir hinir eldri finni nú fyrir því að hafa of seint á ævinni tekið lífeyrissparnaðinn alvarlega. Yngra fólk á vinnumarkaði hafi hins vegar ráð á að taka áhættu í von um meiri ávöxtun sparifjár og byggja meðal annars þannig upp lífeyrissparnað til lengri tíma.