Fjármálaráðuneytið hefur nú skilað Kili lífeyrissjóði aftur í hendur réttkjörinnar stjórnar sjóðsins. Fjármálaráðuneytið setti stjórnina af ásamt framkvæmdarstjóra þann 17. mars s.l. og var sjóðnum ásamt fleiri lífeyrissjóðum skipaður tímabundinn umsjónaraðili til 1. júlí 2009 vegna rannsóknar sérstaks saksóknara.
Stjórn Kjalar hefur gagnrýnt hvernig að yfirtöku sjóðsins var staðið að hálfu Fjármálaráðuneytisins. Stjórnin vill taka það fram að enginn stjórnarmaður sjóðsins né núverandi framkvæmdastjóri hefur verið kallaður í skýrslutöku eða hefur stöðu grunaðs vegna rannsóknar á málefnum tengdum sjóðinum. Stjórn Kjalar fagnar því að þessu óvissutímabili sé nú lokið og að nú geti stjórn hafist handa við að vinna að þeim mikilvægu verkefnum sem liggja fyrir.