Ef kemur til lækkunar á réttindum, sem því miður eru líkur á hvað varðar lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði, er rétt að hafa það í huga að lífeyrissjóðirnir hafa flestir bætt verulega í lífeyrisréttindin á allra síðustu árum, þar sem ávöxtun þeirra hefur verið framúrskarandi. Þá ber að hafa það í huga, að ef ákveðið yrði að skerða lífeyrisréttindi vegna eignarýrnunar sjóðanna þá mun Tryggingastofnun ríkisins í mörgum tilvikum bera hluta lækkunarinnar í formi hærri greiðslna frá almannatryggingum.
Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu er engin furða þó spurt sé hver sé staða
lífeyrissjóðanna á þeim óvissutímum sem nú ríkja. Geta íslensku lífeyrissjóðirnir staðið við
þau loforð, sem þeir hafa gefið á liðnum árum? Hversu mikil hefur eignarýrnun verið á
síðustu mánuðum og mun lífeyrir lækka jafnmikið sem nemur þeirri eignarýrnun, sem sjóðirnir hafa orðið fyrir?
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Ef munur á eignum og lífeyrisskuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár, ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi milli eigna og skuldbindinga. 10% vikmarkið var fært upp í 15% vegna þessa árs.
Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um fjárhagslega afkomu lífeyrissjóðanna kemur í ljós að tryggingafræðileg staða sjóðanna var mjög sterk í árslok 2007 og þurfti enginn lífeyrissjóður að grípa til lækkunar á lífeyrisgreiðslum í fyrra vegna stöðunnar.
En hvernig var staðan um síðustu áramót? Lífeyrissjóðirnir eru nú í að ganga frá ársreikningum sínum og verða þeir almennt birtir í lok þessa mánaðar eða í næsta mánuði. Ljóst er að raunávöxtun lífeyrissjóðanna var verulega neikvæð í fyrra og að fjárfestingaárangurinn sjóðanna verður sá slakasti frá því að reglulegar mælingar hófust á raunávöxtun sjóðanna árið 1991.
Fyrstu tölur um tryggingafræðilega stöðu sjóðanna munu almennt ekki birtast fyrr enn um næstu mánaðarmót, en vinna við tryggingafræðilegt uppgjör hefur verið flytt að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Þá kemur fyrst í ljós hvort einstaka sjóðir þurfi að grípa til þess að lækka lífeyrisréttindin. Hin trausta staða sjóðanna í ársbyrjun 2008 hjálpar mikið til þess að ekki þurfi að grípa til verulegrar lækkunar. Við mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna er líka litið til framtíðar, þ.e. hvaða líkur eru á því að sjóðirnir geti náð 3,5% raunávöxtun að meðaltali á næstu áratugum.
Kemur til lækkunar lífeyris? Rétt er að spyrja að leikslokum en lífeyrissjóðir með góða framtíðarmöguleika hafa betra svigrúm til að bregðast við vandanum. Lækkun lífeyrisins verður því hlutfallslega ekki eins mikil og eignarýrnun sjóðanna. Ef kemur til lækkunar á réttindum, sem því miður eru líkur á hvað varðar lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði, er rétt að hafa það í huga að lífeyrissjóðirnir hafa flestir bætt verulega í lífeyrisréttindin á allra síðustu árum, þar sem ávöxtun þeirra hefur verið framúrskarandi. Þá ber að hafa það í huga, að ef ákveðið yrði að lækka lífeyrisréttindi vegna eignarýrnunar sjóðanna þá mun Tryggingastofnun ríkisins í mörgum tilvikum bera hluta lækkunarinnar í formi hærri greiðslna frá almannatryggingum.
Að lokum skal tekið fram þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis og sveitarfélaga eru
undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga
lífeyrissjóða. Lífeyrisréttindin þeirra sjóða eru því fastsett og tryggð. Sjá einnig frétt á www.live.is