Kaupþing Búnaðarbanki gefur út lífeyrisbók.

Í gær kynnti Kaupþing Búnaðarbanki h.f. útgáfu sérstakrar handbókar fyrir stjórnendur lífeyrissjóða. Það er markmið bókarinnar að hún eigi eftir að vera stjórnarmönnum lífeyrissjóða til margvíslegs gagns í störfum sínum.

 

 Bókin er í 12 köflum og fjallar m.a. um lagalegar skyldur stjórnar, um eignastýringu og fjárfestingastefnu, áhættustýringu lífeyrissjóða, innra eftirlit og tryggingafræðilegar athuganir, vörslu verðbréfa, bókhald o.fl.

Fram kemur í inngangi bókarinnar að starfsfólk Kaupþings Búnaðarbanka hafi verið í nánu samstarfi við stjórnendur fjölmargara lífeyrissjóða á undanförnum árum. Reynsla á því sviði sé grunnurinn að handbókinni. Markmiðið er að bókin þróist í takt við góðar ábendingar og breytingar á rekstrarumhverfi lífeyrissjóða á komandi árum. Þá er vikið að því að frekari efni um lífeyrissjóði sé að finna á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitsins og Alþingis.

Að mati Landssamtaka lífeyrissjóða er hér um lofsvert framtak að ræða hjá fyrirtækinu, sem á eftir að koma stjórnendum lífeyrissjóða að góðu gagni.