Jöfnun lífeyrisréttinda var eitt af átakamálunum í kjarasamningunum

Ríkisstjórnin segir í yfirlýsingu vegna nýrra kjarasamninga að jöfnun áunninna lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins sé viðamikið og brýnt verkefni. Almennir lífeyrissjóðir hafa þurft að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga vegna lélegrar ávöxtunar sem meðal annars tengist bankahruninu. Hins vegar tryggi ríkið að opinberir lífeyrissjóðir þurfi ekki að skerða réttindi þrátt fyrir ófullnægjandi ávöxtun. Í nýjum kjarsamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins kemur fram, að hækka þurfi iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 – 2020.

„Ástæða er til að bregðast sérstaklega við þeim vanda sem hér um ræðir. Það gæti t.a.m. falist í þátttöku ríkisins í inngreiðslum til að jafna uppávið lífeyrisréttindi í almennakerfinu eftir því sem og þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa og þá á 10 – 15 ára tímabili," segir í yfirlýsingunni.

Stjórnvöld lýsa sig reiðubúin til skipa þegar í stað starfshóp með fulltrúum ASÍ, SA og fjármálaráðherra til að gera tillögur um hvernig það verði gert og skal hann skila niðurstöðumfyrir lok september 2011 sem verði lagðar fyrir Alþingi.

Í nýjum kjarsamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins  kemur fram, að hækka þurfi iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 – 2020.

Í sérstakri yfirlýsingu um lífeyrismál segir, að samningsaðilar séu sammála um að halda áfram vinnu að samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði.

Meginmarkmiðið er að allir lífeyrissjóðir á vinnumarkaðnum starfi á sjálfbærum grunni og að lífeyrisréttindi þróist í samræmi við þarfir fyrir ásættanlegan lífeyri.

Í viðræðum samningsaðila verði fjallað um hvernig hækkun iðgjalda verður framkvæmd þ.m.t. áfangaskipting og skipting iðgjalds milli launagreiðenda og starfsmanna á grundvelli samræmingar fyrir vinnumarkaðinn í heild. Tekið verði tillit til mismunandi launakerfa s.s. á fiskiskipum.

Samningsaðilar stefna á að niðurstaða í þessari vinnu liggi fyrir í árslok 2012 og komi til umræðu vegna endurskoðunar kjarasamninga í ársbyrjun 2013.