Innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna um 10% af eignum.

Af heildareignum lífeyrissjóðanna í árslok á síðasta ári námu innlendu hlutabréfin um 10,8% af eignunum. Sambærilegt hlutfall fyrir árið 2001 var 9,3% og vegna ársins 2000 9,8%. Þannig er ljóst að á umliðnum þremur árum hefur innlenda hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna  verið að meðaltali um  1/10 af heildareignum sjóðanna.

Þessar upplýsingar komu fram á fundi, sem Landssamtök lífeyrissjóða héldu í síðustu viku um aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun og rekstri fyrirtækja.

Innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna nam í lok síðasta árs um 73 milljarðar króna á markaðsvirði og hafði hækkað um 29% milli ára. Þennan vöxt má m.a. skýra á þann veg að úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 16,7% á síðasta ári, svo og vegna þess að lífeyrissjóðirnir fjárfestu lítið erlendis, en lögðu þeim mun meiri áherslu á innlendan verðbréfamarkað.

Athyglisvert er líka að bera saman heildareignir lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum miðað við markaðsvirði hlutabréfa, sem skráð eru í  Kauphöll Íslands. Samkvæmt framansögðu nam innlenda hlutabréfaeignin um 73 milljarðar króna í árslok síðasta árs, en markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni nam hins vegar 529 milljarðar króna. Hlutfall innlendra hlutabréfa eigna lífeyrissjóðanna nam því um 13,9% af markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni. Sambærilegt hlutfall vegna áranna 2000  var 14,0% og vegna 2001 nam hlutfallið13,9%.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa lagt mikla áherslu á stjórnskipan fyrirtækja, sem á ensku nefnist “corporate governance” og þar á meðal að fullt tillit sé tekið til réttindi hluthafa og að þau séu varin með hliðsjón af kjöri og samsetningu stjórnar, breytingum á lögum og fullnægjandi upplýsingagjöf. 

Á árinu 2000 létu t.d. Landssamtök lífeyrissjóða þýða reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um  stjórnskipan fyrirtækja, þ.e.  corporate governance. Stjórnskipan fyrirtækja er notað er til að stýra og fylgjast með rekstri atvinnufyrirtækja og þá einkum með því að skilgreina réttindi og skyldur þeirra aðila sem koma að viðkomandi fyrirtæki, sérstaklega þó stjórn, stjórnendum og hluthöfum.   Með góðri stjórnskipan af þessu tagi er hægt að gera hvoru tveggja,  byggja upp traust á verðbréfamarkaðinum og auka trúverðuleika og arðsemi fyrirtækjanna. 

Reglur OECD um stjórnskipan fyrirtækja fjalla um fimm meginatriði, þ.e. 1) réttindi hluthafa, 2) jafnræði hluthafa, 3) hlutverk hagsmunaðila, 4) upplýsingar og gagnsæi og 5) skyldur stjórnar.

Vert er að vekja athygli á stærsta lífeyrissjóði í Bandaríkjunum, CalPERS, sem í eru 1,3 milljón sjóðfélagar, en sjóðurinn nær til opinberra starfsmanna í Kaliforníu, hvort sem um er að ræða starfsmenn ríkisins, fylkis eða bæjarfélaga.

CalPERS hefur verið í forystu bandarískra lífeyrissjóða varðandi stjórnskipan fyrirtækja og hafa m.a. opnað sérstaka vefsíðu um málefnið, http://www.calpers-governance.org/. CalPERS hefur m.a. veitt bandarískum fyrirtækjum mikið aðhald og tekur m.a. afstöðu á hluthafafundum um öll mikilsverð málefni, þ.á.m. stjórnarkjör.  Á vefsíðunni eru m.a. tillögur CalPERS um margvísleg málefni, sem sjóðurinn hefur tekið afstöðu til og mun  eða hefur verið fylgt eftir á aðalfundum um 300 stórfyrirtækja í Bandaríkjunum.

LL-FRÉTTIR munu á næstunni greina frekar frá þessum fundi og framsöguerindum, en framsögumenn voru Loftur Ólafsson, lektor Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins