Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna var neikvæð um 1,9% á síðasta ári að jafnaði miðað við vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um rekstur lífeyrissjóða á síðasta ári. Skýrslan í ár kemur út tveim mánuðum fyrr en á síðasta ári og má ástæðuna rekja til bættra gagnaskila.
Alls eru sjóðfélagar tæplega 202 þúsund talsins og þar af eru rúmlega 52 þúsund sem fá greiddan lífeyri. Hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris í árslok 2001 nam 644,8 milljörðum króna samanborið við 565,7 milljarða króna í árslok 2000. Aukningin er 14% sem samsvarar 4,96% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs. Ráðstöfunarfé samkvæmt sjóðstreymi á árinu 2001 nam samtals 181,5 milljörðum samanborið við 144,9 milljarða árið á undan. Iðgjöld milli ára jukust úr 49,7 milljörðum á árinu 2000 í 62,7 milljarða á árinu 2001. Lífeyrissjóðum fækkaði um tvo á síðasta ári. Lífeyrissjóður KEA sameinaðist Lífeyrissjóði Norðurlands og Lífeyrissjóður verklýðsfélaga á Norðurlandi vestra sameinaðist Lífeyrissjóði Norðurlands og Lífeyrissjóði Vestfirðinga. A-deild Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar sameinaðist Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga í ársbyrjun. Fyrir liggur frekari fækkun lífeyrissjóða þar sem Lífeyrissjóðurinn Hlíf sameinaðist Sameinaða lífeyrissjóðnum á árinu og Lífeyrissjóðurinn Eining sameinaðist Frjálsa lífeyrissjóðnum á árinu. Af þeim 54 sem störfuðu í árslok taka 11 þeirra ekki lengur við iðgjöldum, og eru því fullstarfandi sjóðir 43.