Hrein eign til greiðslu lífeyris hækkaði um 14,6% hjá Lífeyrissjóði bænda. Raunávöxtun 8,83% á síðasta ári.

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 20.905 mkr. í árslok 2006 og hækkaði um 14,6% frá fyrra ári. Nafnávöxtun var 16,19% og raunávöxtun 8,83%. Hrein raunávöxtun nam 8,64%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára nemur 5,98% og síðustu 10 ára 5,21%. Endurmetnar eignir eru 22,1% hærri en áfallnar skuldbindingar og 9,8% hærri en heildarskuldbindingar. Á árinu 2006 sáu þrír fjárvörsluaðilar um vörslu og ávöxtun eignasafns lífeyrissjóðsins. Hjá Glitni eru í árslok um 58% af eignum sjóðsins, hjá Landsbanka 20% og hjá Kaupþingi 20%. Um 2% eignanna eru í vörslu lífeyrissjóðsins, aðallega sjóðfélagalán.

Lög og samþykktir

Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr. 12/1999 um Lífeyrissjóð bænda og lögum nr. 129/1997 um

skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Nánari reglur um framkvæmd laganna eru í

samþykktum sjóðsins. Lögum um sjóðinn var breytt með lögum nr. 78/2006 þar sem þau voru einfölduð, lífeyrisréttindaákvæði felld niður til þess að unnt yrði að breyta lífeyrisréttindaákvæðum í samþykktum sjóðsins til samræmis við aldurstengingu réttinda og kafli um eftirlaun til aldraðra í Lífeyrissjóði bænda gerður sjálfstæður hluti laganna. Í kjölfarið var samþykktum breytt og voru þær staðfestar af fjármálaráðuneyti 29. desember s.l.

 

Fjöldi sjóðfélaga og iðgjaldatekjur

Alls greiddu 3.186 sjóðfélagar 123,3 mkr. iðgjöld til Lífeyrissjóðs bænda vegna tekjuársins 2006. Af virkum sjóðfélögum eru nú 2.891 bóndi. Innkomin iðgjöld á reikningsárinu námu hins vegar 132,4 mkr. Uppgjör iðgjalda er miðað við 31. desember 2006 en til viðbótar bókfærðum iðgjöldum er áætlað að heildariðgjöld hækki um 12% fram að eindaga. Tekjufærð heildariðgjöld sjóðfélaga eru samtals 148,3 mkr. á reikningsárinu og mótframlög samtals 286,1 mkr. Réttindaflutningar námu nettó 2,8 mkr. Heildariðgjaldatekjur námu því 437,2 mkr., sem er um 4,8% hækkun frá fyrra ári.

 

Iðgjöld, iðgjaldsstofn og innheimta

Iðgjöld sjóðfélaga nema 4% af launum. Iðgjaldsstofn bænda er reiknuð laun í landbúnaði eða greidd laun þar sem búrekstrarformi er þannig háttað. Iðgjöldum þeirra bænda sem reikna sér laun og njóta beingreiðslna er haldið eftir af beingreiðslunum mánaðarlega en iðgjöld annarra bænda eru innheimt með greiðsluseðlum. Bændur sem reikna sér ekki laun greiða iðgjöld sín beint til sjóðsins mánaðarlega. Launagreiðendur skila iðgjöldum launþega í landbúnaði mánaðarlega til sjóðsins og ennfremur launagreiðendur þeirra bænda sem eru í annarri atvinnu og kjósa að greiða iðgjöld af henni til sjóðsins.

 

Mótframlag bænda

Lög um sjóðinn kveða á um að mótframlag á móti iðgjöldum bænda skuli greitt af sjóðfélögum nema samið sé um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður hefur greitt mótframlag til sjóðsins vegna sauðfjár- og mjólkurframleiðslu. Mótframlag ríkissjóðs var nægilega hátt á árinu til þess að iðgjöld vegna annarra búgreina væru einnig bókuð til fullra réttinda hjá sjóðnum án þess að sérstakt mótframlag bærist frá bændum. Mótframlag á fjárlögum ársins 2007 er örlítið hærra. Mótframlag í Lífeyrissjóð bænda var hækkað í 8% frá 1. janúar 2007 og áætlanir benda til að mótframlag ríkisins á móti iðgjöldum bænda dugi ekki á árinu 2007. Svo getur því farið að nauðsynlegt verði að innheimta mótframlag af bændum síðari hluta ársins.

 

Lífeyrisgreiðslur

Heildarlífeyrisgreiðslur námu 742,5 mkr. til 3.802 lífeyrisþega, sem er um 5,4% hækkun greiðslna frá árinu 2005. Lífeyrisgreiðslur skiptust þannig á árinu: Lífeyrir greiddur vegna áunninna réttinda í sjóðnum nam 697,5 mkr., þar af ellilífeyrir 534,4 mkr., makalífeyrir 58,8 mkr., örorkulífeyrir 95,1 mkr. og barnalífeyrir 9,2 mkr. Lífeyrir greiddur af ríkissjóði, þ.e. lífeyrir til bænda fæddra 1914 og fyrr eða maka þeirra, nam samtals 45,1 mkr.

 

Verðbréfaviðskipti

Verðbréfakaup sjóðsins á árinu 2006 námu alls 8,438,5 mkr. Verðbréfakaupin skiptast þannig: Skuldabréf 556,4 mkr.; hlutdeildir í innlendum verðbréfasjóðum 5.432 mkr.; hlutdeildir í erlendum verðbréfasjóðum 2.205,4 mkr. og hlutabréf 232,5 mkr. Lán til sjóðfélaga námu 12,2 mkr. Sala og innlausn verðbréfa nam alls 7.985,1 mkr. Þar af námu seld og innleyst skuldabréf 338,8 mkr., seldar hlutdeildir í innlendum verðbréfasjóðum 5.687,5 mkr., erlendum verðbréfasjóðum 1.915,5 mkr. og seld hlutabréf 43,3 mkr.