Hrein eign Gildis hækkar um 17,2 milljarða.

Samkvæmt milliuppgjöri Gildis-lífeyrissjóðs fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní var hrein raunávöxtun sjóðsins á ársgrundvelli á tímabilinu 6,7% og nafnávöxtun 18,3%. Hrein eign Gildis til greiðslu lífeyris nam 198,5 milljörðum króna í lok júní 2006 og hefur hækkað um 17,2 milljarða frá ársbyrjun.

Fjárfestingartekjur á tímabilinu námu 15,7 milljörðum króna og hækkuðu um 2,8 milljarða á milli ára. Í tilkynningu frá sjóðnum segir, að mikill óróleiki á verðbréfamörkuðum hafi einkennt fyrri helming ársins. Ágæt ávöxtun var á erlendri verðbréfaeign sjóðsins sem og skuldabréfasafni, en innlend hlutabréf sjóðsins lækkuðu lítilsháttar á tímabilinu.

 Iðgjöld til sjóðsins voru 3,8 milljarðar króna fyrstu 6 mánuði ársins og hækkuðu um 18% frá fyrra ári.

Greiddur lífeyrir nam 2,3 milljörðum og hækkaði um 19% á milli ára.

Eignir sjóðsins skiptast þannig að 51% er í innlendum skuldabréfum, 21% í innlendum hlutabréfum og 28% í erlendum verðbréfum.