Hollenska ríkisstjórnin biðlar til lífeyrissjóðanna

Ríkisstjórn Hollands hvetur ráðamenn lífeyrissjóða í landinu til að stuðla að því með fjárfestingum að styrkja efnahagsstoðir samfélagsins og fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar. Þetta kom fram á fundi embættismanna fjármála- og efnahagsráðuneyta með hollenskum stofnanafjárfestum, þar á meðal lífeyrissjóðum, þriðjudaginn 30. júní. Þetta var fyrsti fundurinn sinnar tegundar og þar voru engar ákvarðanir teknar. Þráðurinn verður tekinn upp að nýju að loknum sumarleyfum. Lífeyrissjóðirnir setja í millitíðinni á laggir starfshóp til að samræma sjónarmið sín í málinu.

Fjármálaráðherrann, Wouter Bos, hefur beinlínis farið fram á það við lífeyrissjóðina að þeir fjárfesti í bankanum ABN Ambro, sem nú er á forræði ríkisins. Hans ten Brinke, talsmaður stærsta líferyissjóðs opinberra starfsmanna í Hollandi, ABP, svaraði því til að lífeyrissjóðir hefðu því aðeins áhuga á að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum og ýmsum uppbyggilegum verkefnum að ávöxtun fjármuna væri trygg og áhætta viðunandi. Hann tók fram að lífeyrissjóðirnir kærðu sig ekki um að vera undir neinum þrýstingi stjórnvalda og að ákvarðanir af hálfu sjóðanna yrðu að falla að fjárfestingarstefnu þeirra. Af hálfu fjármálaráðuneytis Hollands kom skýrt fram að lífeyrissjóðirnir yrðu ekki „neyddir“ til fjárfestinga af neinu tagi, þeir tækju slíkar ákvarðanir sjálfir og á eigin ábyrgð.

 

Nokkuð er um að lífeyrissjóðir um heim allan séu hvattir til að beita sér í þágu efnahagsuppbyggingar heima fyrir. Þannig hefur fjármálaráðherra Nýja Sjálands farið fram á að eftirlaunasjóðurinn New Zealand Superannuation Fund verji allt að 40% ráðstöfunarfjár síns innanlands til að örva efnahagslífið. Nýsjálendingar búa við gegnumstreymiskerfi lífeyris. Þeir stofnuðu nefndan eftirlaunasjóð árið 2001 til að búa þjóðina undir að standa undir eftirlaununum þegar landsmenn eldast hlutfallslega og sífellt færri á vinnumarkaði þurfa að fjármagna eftirlaunakerfið sífellt fleira fólks til lengri tíma. Nú um stundir hefur einn af hverjum átta Nýsjálendingum náð 65 ára aldri en árið 2030 verður fjórði hver landsmaður 65 ára og eldri.