Hlutverk lífeyrissjóða í fjárfestingastarfsemi og endurreisn atvinnulífsins

Eftirfarandi er haft eftir Þorkeli Sigurlaugssyni í athyglisverðri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:
"Lífeyrissjóðir um allan heim fjárfesta í atvinnurekstri og það er ekki síst mikilvægt hér á landi þegar fjármagn frá öðrum aðilum er takmarkað.  Það er ekki vænlegt og skilar sífellt minni ávöxtun að liggja með fjármuni í Seðlabanka Íslands.  Lífeyrissjóðir hafa
fjárfest beint í fyrirtækjum í marga áratugi, án þess að hafa sérstakan fjárfestingasjóð til að vinna fyrir sig sameiginlega.  Stofnun Framtakssjóðsins er því mikið framfaraspor."  

Greinin birtist hér í heild sinni:
Lífeyrissjóðir, eins og margir aðrir sjóðir, fjármálastofnanir og einstaklingar hafa tapað miklu á undanförnum árum í fjárfestingastarfsemi.  Lífeyrissjóðirnir áttu verðbréf í mörgum fyrirtækjum og töpuðu umtalsverðum fjármunum í kjölfar bankahrunsins og gjaldþrots margra fyrirtækja.  Eignir lífeyrissjóðanna hafa rýrnað talsvert vegna þessa, en eru þó um 1.800 milljarðar króna eða um 6 milljónir króna á hvern landsmann.    
Lífeyrissjóðir eru ýmist gagnrýndir fyrir að taka of lítinn þátt í fjárfestingum í atvinnulífinu og endurreisn þess eða vera of áhrifamiklir.  Það er aftur á móti mikil munur á því sem nú er í gangi í atvinnulífinu og því sem tíðkaðist í fyrirtækjum útrásarvíkinganna. Lífeyrissjóðirnir eru einnig reynslunni ríkari og stofnuðu 16 þeirra þann 8. desember 2009 Framtakssjóð Íslands (FSÍ) shl. (samlagshlutafélag)  til að vinna að fjárfestingum í meðalstórum og stórum félögum á Íslandi.


Framtakssjóður atvinnuífsins
Framtakssjóðinn (FSÍ) stofnuðu þessir lífeyrissjóðir til þess að taka þátt í að móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs og fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. Markmiðið er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til lífeyrissjóðanna og annarra eigenda. FSÍ er ekki einhver góðgerðarsjóður þótt talað sé um samfélagslega ábyrgð í starfsreglum hans. Sjóðnum er að mjög takmörkuðu leyti heimilt að fjárfesta erlendis, en auðvitað gæti til þess komið ef það getur stuðlað að hagræðingu eða samruna íslenskra fyrirtækja. Sjóðnum bera að losa sig við keyptar eignir innan fárra ára. Í sumum tilfellum gæti sala átt sér stað mjög hratt, jafnvel innan nokkurra missera. Það getur gerst með sölu þeirra að hluta eða öllu leyti, hugsanlega tengt því að koma félögunum á hlutabréfamarkað. Við söluna er fjármunum strax skilað til baka til lífeyrissjóðanna 16 sem eiga FSÍ. Þannig skila fjármunirnir sér strax til lífeyrissjóðanna.
Lífeyrissjóðir um allan heim fjárfesta í atvinnurekstri og það er ekki síst mikilvægt hér á landi þegar fjármagn frá öðrum aðilum er takmarkað.  Það er ekki vænlegt og skilar sífellt minni ávöxtun að liggja með fjármuni í Seðlabanka Íslands.  Lífeyrissjóðir hafa fjárfest beint í fyrirtækjum í marga áratugi, án þess að hafa sérstakan fjárfestingasjóð til að vinna fyrir sig sameiginlega.  Stofnun Framtakssjóðsins er því mikið framfaraspor. Innan sjóðsins verður byggð upp sérhæfð þekking í fjárfestingum og rekstri.  Starfsmenn Framtakssjóðsins og ráðgjafar þeirra eiga að vera með þekkingu og áherslu á sviði fjárfestingastarfsemi, samruna fyrirtækja, umbreytingu þeirra, sölu eða skráningu á hlutabréfmarkaði. Lífeyrissjóðirnir eru því almennt ekki að fjárfesta beint í Vestia eða Icelandair eins og haldið hefur verið fram, heldur í gegnum Framtakssjóðinn eða þá í samstarfi við hann.


Samstarf um fjárfestingar mjög jákvætt
Það er æskilegt að lífeyrissjóðir vinni saman og góð reynsla er af þessu erlendis.  Meginverkefni Framtakssjóðsins er að tryggja arðsemi af fjárfestingunum á sama tíma og stuðlað er að endurreisn íslenskra fyrirtækja. 
Lífeyrissjóðir hafa áratugum saman fjárfest í fyrirtækjum og það hefur stundum verið umdeilt og þá oft tengt stjórnarsetu og virkri þátttöku lífeyrissjóðanna.  Yfirleitt hafa lífeyrissjóðir ekki verið áhrifafjárfestar, eða kjölfestufjárfestar eins og það er kallað, og ekki haft mikil áhrif á rekstur viðkomandi félags.  FSÍ er aftur á móti sérstaklega ætlað það hlutverk að vera virkur, tiltölulega stór fjárfestir og vinna þannig markvisst að stjórnun og þróun viðkomandi félags.  Þessi sjóður er því ekki mjög frábrugðinn öðrum sjóðum sem lífeyrissjóðir hafa fjárfest í t.d. erlendis þar sem samsvarandi sjóðir fjárfesta í stórum öflugum fyrirtækjum. 
Í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart hörð viðbrögð við fjárfestingu Framtakssjóðsins í Vestia og jafnvel einnig í Icelandair.  Að hluta til skýrist þetta af því að samkeppnisaðilum finnst að sér vegið og í annan stað höfðu fæstir áttað sig raunverulega á hlutverki Framtakssjóðsins og hvaða reglur giltu um fjárfestingar hans.   Það er óraunhæft að Framtakssjóðurinn geti bara komið að fjárfestingum í félagum sem ekki eru í samkeppni, því samkeppni ríkir sem betur fer í flestum atvinnugreinum.   Það er öllum til góðs að koma eignarhaldi fyrirtækja út úr bönkunum; reynsla undanfarinna ára í því efni er slæm og var ein meginástæða banka- og efnahagshrunsins.


Samskiptin við ríkið
Sumir eru þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðir eigi ekki að vera fjármögnunaraðilar opinberra framkvæmda svo sem í vega- og jarðgangagerðar, byggingu sjúkrahúss og annarra framkvæmda sem almennt eru í höndum ríkisins. Mörgum þykir nóg um skattlagningu á almenning þótt ekki eigi líka að fara að nota lífeyrissparnað landsmanna til ríkisframkvæmda. Það má vissulega hafa efasemdir uppi um hagsmuni sjóðsfélaga að leysa fjárhagsvanda ríkisins með því að lána fé til framkvæmda sem ríkissjóður getur ekki aflað annars staðar vegna slæmrar fjárhagsstöðu.   Lifeyrissjóðirnir ættu fyrst og fremst að leggja áherslu á arðsamar fjárfestingar, hvort sem er í einkarekstri eða ríkisrekstri, sem geta aukið þjóðartekjur, hagvöxt og atvinnu án umtalsverðrar áhættu.  Þannig fengi ríkið einnig auknar skatttekjur og greiddi minna í atvinnuleysisbætur. Lánveitingar til vegagerðar og háskólasjúkrahúss verða a.m.k. ekki innan Framtakssjóðsins enda sjóðnum fyrst of fremst ætlað að fjárfesta með eiginfjárframlagi, oftast hlutafé.  Þar munu arðsemissjónarmið verða grundvallaratriði.


Þurfum að ávaxta okkar fjármuni líka erlendis
Um tíma voru lífeyrissjóðir gagnrýndir fyrir að fjárfesta erlendis og þeir hvattir til að koma með fjármunina heim. Þá var horft til þess að ávöxtun væru svo miklu betri hér heima og mikilvægt að styðja við þessi íslensku fyrirtæki, sem því miður reyndust svo mörg verða étin innanfrá af eigendum sínum. Mikilvægt er að lífeyrissjóðir setji ekki öll eggin í eins körfu hér á Íslandi. Þess vegna er afar  æskilegt að lífeyrsjóðir fjárfesti erlendis í fyrirtækum og öflugum sjóðum. Þá eiga lífeyrisþegar ekki bæði á hættu að tapa vinnunni t.d. við hrun fyrirtækja, búa á Íslandi og tapa þá líka sínum lífeyri.  Lífeyrissjóðir eiga að halda sjálfstæði sínu og láta ekki hrekja sig heim til Íslands með sínar fjárfestingar. Það væri mjög áhugavert ef lífeyrisjóðum t.d. í gegnum FSÍ tækist að fá erlenda aðila til að fjárfesta hér á landi. Ég spái því að þess sé ekki langt að bíða að það gerist annað hvort í FSÍ eða þá félögum sem FSÍ á stóran eignarhlut í.   
Lífeyrissjóðirnir eiga að gera allt sem skynsamlegt er til að styðja við endurreisn atvinnulífsins og fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi, en ekki síður erlendis. Það eru hagsmunir allra aðila bæði fyrirtækja og starfsmanna þeirra.  Við þurfum að leggja áherslu á að byggja upp arðsamt öflugt íslenskt atvinnulíf með atvinnutækifæri Íslendinga í huga þar sem bætt lífsgæði eru leiðarljósið.  Hlutverk lífeyrissjóðanna er þar mjög mikilvægt.   
 
Þorkell stjórnarmaður í Framtakssjóði Íslands.