Heildareignir lífeyrissjóðanna rúmlega 970 miljarðar króna í lok nóvember s.l.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands námu heildareigir lífeyrissjóðanna 970.619 m. kr. í lok nóvember s.l., sem er um 17,8% aukning miðað við lok árs 2003. Lán til sjóðfélaga námu alls rúmlega 89 miljörðum króna í lok nóvember eða um 9,2% af heildareignum sjóðanna.

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu alls rúmlega 210 miljörðum króna í lok nóvember s.l., sem er um 21,7% af heildareignunum. Heldur hefur hlutfall erlendra eigna hækkað hjá sjóðunum eða um rúma 50 miljarða króna m.v. upphaf ársins 2004, en þá voru erlendu eignirnar um 160 miljarðar króna eða um 19,4% af heildareignum sjóðanna.

Mest er aukningin í innlendum hlutabréfum, en í árslok 2003 námu innlendu hlutabréfin um 96.750 m.kr. en í lok nóvember s.l. var sú fjárhæð komin upp í 133.618 m.kr. eða um 13,8% af heildareignum sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir áttu í reiðufé í bönkunum rúmlega 28 miljarða króna í lok nóvember s.l., sem er töluverð aukning m.v. lok árs 2003 þegar sjóður og bankainnistæður námu tæplega 19 miljörðum króna.