Hæsta raunávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins frá upphafi.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn skilaði metávöxtun á síðasta ári. Gott gengi á verðbréfamörkuðum og virk stýring sjóðsins skilaði árangri umfram þá kröfu sem gerð var í fjárfestingarstefnu hans.

Nafnávöxtun Frjálsa 1, sem hefur mest vægi hlutabréfa og er fjölmennasta leiðin, var 19,2% og raunávöxtun 16,0% sem er hæsta raunávöxtun sjóðsins frá stofnun hans árið 1978. Ávöxtun leiðarinnar var 3,4% umfram fyrirfram skilgreinda viðmiðunarvísitölu, sem er ákvörðuð í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins.

 Nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins var 19,1% sem einnig er hæsta ávöxtun deildarinnar frá upphafi. Staða tryggingadeildar er traust en eignir umfram áfallnar skuldbindingar voru 13,1% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 3,9%. Hrein eign til greiðslu lífeyris nam í lok árs 25,8 milljörðum og jókst um 6,1 milljarð á milli ára, eða um 31%. Þar af var ávöxtun ársins 3,7 milljarðar. Iðgjöld til sjóðsins námu 3,2 milljörðum og lífeyrisgreiðslur 299 milljónum. Sjóðfélagar voru í lok árs 25.868. Frjálsi lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1978 og var því að ljúka 25. starfsári sínu.

Arnaldur Loftsson, er framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins: „Það er ánægjulegt að verða vitni að þeim viðsnúningi sem varð á verðbréfamörkuðum á árinu 2003 og endurspeglast í bestu ávöxtun sjóðsins frá upphafi. Ávöxtunin var langt umfram væntingar fjárfestingarstefnu sjóðsins og því ljóst að virk stýring á eignum sjóðsins er nú að skila besta árangri frá stofnun. Lífeyrissparnaður er í eðli sínu langtímasparnaður þar sem búast má við skammtímasveiflum í ávöxtun en þær jafnast út á löngum tíma. Lokaárangurinn er því eini mælikvarðinn á það hvernig til hefur tekist. Sjóðfélagar geta valið sér þá samsetningu áhættu og mögulegrar ávöxtunar sem þeim hentar best og því býður Frjálsi lífeyrissjóðurinn upp á þrjár fjárfestingarleiðir og þeim fylgir misjafnlega mikil áhætta. Þetta er gert til að koma til móts við mismunandi þarfir sjóðfélaga. Til viðbótar er hægt að haga sparnaðinum þannig að áhættan minnkar sjálfkrafa eftir því sem sjóðfélagar verða eldri og er það í raun sú leið sem ég mæli með.“

 


Úr fréttatilkynningu Frjálsa lífeyrissjóðsins