Stjórn Lífeyrissjóðs Suðurlands samþykkti einróma á stjórnarfundi í dag að ráða Gylfa Jónasson sem nýjan framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Suðurlands. Gylfi mun hefja störf í apríl 2006.
Gylfi Jónasson hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Vesturlands undanfarin fimm og hálft ár, en hann tók við því starfi í september 2000. Hann starfaði áður sem deildarstjóri hjá Lífeyrissjóði stofnana Sameinuðu þjóðanna í New York (1997-2000) og sem deildarstjóri í fjármáladeild aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (1992-1997).
Gylfi er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með framhaldsmenntun (MBA) frá Bandaríkjunum. Hann hefur einnig hlotið löggildingu í verðbréfamiðlun (júní 2005).
Friðjón Einarsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Suðurlands, hefur sagt starfi sínu lausu og mun hverfa til annarra starfa með vorinu. Friðjón hóf störf hjá Lífeyrissjóði Suðurnesja sumarið 1999 og hefur því starfað hjá sjóðnum í rúm 6 ár. Starfslok Friðjóns eru gerð í fullri vinsemd við stjórn sjóðsins.