Grænt ljós á banka- og tryggingastarfsemi danskra lífeyrissjóða

Ríkisstjórn Danmerkur hyggst beita sér fyrir lagabreytingum sem miða að því að hinir öflugu lífeyrissjóðir þar í landi, ATP og LD, geti átt og rekið banka, stundað lánastarfsemi og veitt tryggingaþjónustu. Annar þessara sjóða, eignaðist á dögunum helminginn í FIH bankanum í Danmörku, sem áður var í eigu Kaupþings banka.

Hvorki ATP né LD hyggjast rjúka til og færa út kvíar í fjármála- og tryggingaþjónustu, þegar þingið afgreiðir lagaheimildir þar að lútandi. Formælendur sjóðanna segjast hins vegar fagna breytingunni. Gott sé að vita til þess að slíkur möguleiki sé fyrir hendi í starfseminni. ATP keypti 49,95% hlut í FIH bankanum í september síðastliðnum af skilanefnd Kaupþings, eins og greint var frá í fréttum hér heima.

Í gildandi lögum í Danmörku er kveðið á um að lífeyrissjóðir megi ekki eiga meirihluta í fyrirtækjum nema í undantekningartilvikum og slíkt eignarhald skal einungis vara innan við eitt ár til að gæta hagsmuna sjóðanna gagnvart tilteknum fjárfestingum sínum. Þegar nýju lögin taka gildi öðlast lífeyrissjóðirnir hins vegar heimild til að eignast félög að öllu leyti og eiga þau eins lengi og þeim sýnist. Því hefur verið varpað fram í opinberri umræðu í Danmörku að áform um lagabreytinguna tengist FIH-málinu og þeirri staðreynd að ATP mátti ekki eignast meirihluta í bankanum.

Þessu hafnar Mona Frandsen, lögfræðingur hjá ATP. Hún segir að frumvarp til breytinga á lögum um starfsemi lífeyrissjóða eigi sér mun lengri aðdraganda en svo að FIH-málið hafi eitthvað með það að gera.

Byggt á fréttaveitunni ipe.com