Framtakssjóður Íslands skilaði 700 milljónum króna í hagnað á árinu 2010. Heildareignir sjóðsins í árslok námu um 5,6 milljörðum króna og eigið fé í lok árs var 4,9 milljarðar. Árið 2010 var fyrsta eiginlega starfsár Framtakssjóðs Íslands. Við áramót var hlutur sjóðsins í Icelandair Group eina hlutabréfaeign félagsins. Í janúar 2011 samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Framtakssjóðsins á Vestia og bættust þá Icelandic Group, Skýrr, Vodafone, Húsasmiðjan og Plastprent í eignasafn Framtakssjóðsins. Með þeirri viðbót nemur samanlögð velta fyrirtækja í eignasafni sjóðsins nú um 300 milljörðum króna og hjá þeim starfa um 8 þúsund starfsmenn, um helmingur þeirra á Íslandi.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir að afkoman skýrist af þeim árangri sem náðist í rekstri Icelandair á seinasta ári.
Starfsemi Framtakssjóðsins á árinu hafi mótast að verulegu leyti af uppbyggingu eignasafnsins en 5 fyrirtæki bættust í eignasafn sjóðsins nú í janúar 2011.
Verkefnin framundan séu að halda áfram að byggja upp eignasafnið, vinna að sölu á þeim eignum sem búið er að tilkynna að fari í söluferli og þróa önnur fyrirtæki í eigu sjóðsins áfram.