Góð afkoma Lífeyrissjóðs Austurlands á árinu 2003.

Mikill viðsnúningur var á rekstri Lífeyrissjóðs Austurlands á síðasta ári og var ávöxtun ársins ein sú besta í sögu sjóðsins. Hrein eign hækkaði um 2,4 milljarða króna á árinu eða um 18,2% og var 15,6  milljarðar í árslok 2003. Hrein raunávöxtun sjóðsins nam 11,2% en fjárfestingatekjur námu tæpum 2 milljörðum á árinu samanborið við 1,3 milljarða tap árið 2002. 

Áherslubreytingar urðu nokkrar eftir að ný stjórn tók til starfa á síðasta ársfundi sjóðsins. Nýr framkvæmdastjóri var ráðinn til starfa og hefur starfsemi sjóðsins verið endurskipulögð og flutt heim í hérað. Hefur sú vinna gengið vel.

 

Í byrjun árs festi Lífeyrsissjóður Austurlands kaup á 1/3 hlutafjár í Verðbréfafyrirtækinu Jöklum og á þar nú jafnan hlut með Lífeyrissjóðnum Framsýn og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Í gegnum Jökla eiga þessir lífeyrissjóðir samstarf um fjárfestingaákvarðanir, sérstaklega hvað innlend hlutabréf varðar. Nýverið var gerður samningur við KB banka um ráðgjöf í áhættustýringu og samstarf um eignastýringu hluta sjóðsins.

 

Ársfundur Lífeyrissjóðs Austurlands verður haldinn í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði fimmtudaginn 13. maí og hefst fundurinn kl. 16:30.