Stjórn Lífeyrissjóðs Norðurlands afgreiddi ársreikning sjóðsins fyrir 2006 á fundi sínum 6. febrúar sl. Afkoma ársins var góð og var nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins 16,2% og raunávöxtun 8,6%. Góð ávöxtun skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu erlendra eigna, einkum erlendra hlutabréfa. Má rekja það bæði til góðrar ávöxtunar á erlendum mörkuðum og mikillar veikingar á íslensku krónunni á árinu.
Afkoma Séreignardeildar var einnig góð. Deildin rekur tvö vel áhættudreifð söfn sem sjóðfélagar geta valið um. Safn I sem er áhættuminna og Safn II sem er áhættumeira og hefur hærra hlutfall hlutabréfa. Ávöxtun Safns I var 20% á árinu og ávöxtun á Safni II var 22%.
Heildareignir sjóðsins í árslok voru 56,4 milljarðar króna í árslok. Iðgjöld ársins námu 2.432 milljónum króna og lífeyrisgreiðslur námu 1.379 milljónum króna.