Frjálsi lífeyrissjóðurinn var valinn besti lífeyrissjóður á Íslandi af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE) á árlegri verðlaunahátíð sem fram fór í Dublin á Írlandi 18. nóvember sl.
Jafnframt var sjóðurinn valinn næstbesti lífeyrissjóður í Evrópu af lífeyrissjóðum sem eru minni en 1 milljarður evra (183 milljarðar kr.) að stærð og næstbesti lífeyrissjóðurinn í Evrópulöndum sem eru með færri en 1 milljón íbúa.
Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram að Frjálsa lífeyrissjóðnum hefði tekist að vernda hagsmuni sjóðfélaga í erfiðum markaðsaðstæðum með því að minnka áhættu sjóðsins í fjárfestingum en það fól m.a. í sér að auka hlutfall verðtryggða ríkisskuldabréfa í eignasafni sjóðsins. Jafnframt vakti dómnefndin athygli á uppbyggingu sjóðsins og þeirri ákvörðun hans að auka gagnsæi.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur áður unnið IPE-verðlaun. Árið 2005 var sjóðurinn valin besti lífeyrissjóður Evrópu í flokknum Uppbygging lífeyrissjóða.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er um 75 milljarðar að stærð og sjóðfélagar eru rúmlega 43.000 talsins. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 12% lágmarksiðgjald og jafnframt hentar hann þeim sem vilja ávaxta viðbótarlífeyrissparnað í sjóðnum.
IPE er eitt virtasta fagtímarit Evrópu um lífeyrismál. Árlega fer fram verðlaunaafhending þar sem tímaritið verðlaunar lífeyrissjóði sem hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Danski lífeyrissjóðurinn ATP var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni. Á verðlaunahátíðinni, sem nú var haldin í 9. sinn, voru um 500 manns, þ.m.t. Brian Cowen forsætisráðherra Írlands, og fulltrúar lífeyrissjóða frá 30 löndum í Evrópu. Samkvæmt IPE er verðlaunahátíðin talin stærsta samkoma lífeyrissjóða í Evrópu ár hvert.