Vegna sterkrar tryggingafræðilegrar stöðu hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem rekinn er af KB banka, greitt sjóðfélögum rúmlega 1,7 milljarða bónus. Bónusgreiðslurnar voru greiddar úr samtryggingadeild sjóðsins í frjálsa séreign til þeirra sjóðfélaga sem áttu réttindi í samtryggingadeildinni 31. desember 2005. Séreignin er laus til útborgunar eftir 60 ára aldur og greiðist út með jöfnum greiðslum til 67 ára aldurs eða lengur eftir ósk sjóðfélaga.
Þetta er hæsta bónusgreiðsla sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur greitt til sjóðfélaga.
Að þessu sinni fengu rúmlega 20.000 sjóðfélagar bónus og nam meðalfjárhæðin um 87.000 kr. á sjóðfélaga.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1978 og er því að ljúka 28. starfsári sínu. Stærð sjóðsins er um 57 milljarðar.
Framkvæmdastjóri sjóðsins er Arnaldur Loftsson.