Framúrskarandi ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í fyrra.

Unnið er að endurskoðun ársreiknings Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) en eignir sjóðsins námu 240 milljörðum í árslok 2006 og jukust um liðlega 49 milljarða á árinu eða um 26%. Ávöxtun sjóðsins var 20% á síðasta ári sem samsvarar rúmlega 12% raunávöxtun. Þetta gerir árið að öðru besta rekstrarári í sögu lífeyrissjóðsins.

Lífeyrisgreiðslur
 Á árinu 2006 greiddu 50 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins og námu iðgjaldagreiðslur alls 12,5 milljörðum. Þá greiddu 7 þúsund fyrirtæki til sjóðsins vegna starfsmanna sinna. Á árinu 2006 nutu 7.700 lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 3,4 milljarðar.

Ávöxtun og rekstrarkostnaður
Ávöxtunin var 20% á síðasta ári sem samsvarar rúmlega 12% raunávöxtun sem gerir árið að öðru besta rekstrarári í sögu sjóðsins. Allir eignaflokkar sýndu góða ávöxtun en þó var ávöxtun erlenda verðbréfasafnsins best á árinu sem helgast af hækkun erlendra hlutabréfamarkaða auk lækkunar íslensku krónunnar. Rekstrarkostnaður sjóðsins var einungis 0,06% af eignum eða sem nemur 57 aurum fyrir hverjar 1.000 krónur.

Hækkun lífeyrisréttinda
Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu sjóðsins mun stjórn hans leggja til við aðildarsamtök sjóðsins að lífeyrisréttindi sjóðfélaga og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkaðar frá 1.1.2007. Ákvörðun um hækkun réttindanna verður tekin fljótlega.

Verðbréfaviðskipti
Á liðnu ári ráðstafaði sjóðurinn til lánveitinga og hlutabréfakaupa 59,4 milljörðum. Lánveitingar til sjóðfélaga námu 5,6 milljörðum, innlend hlutabréfakaup námu 27,9 milljörðum og sala hlutabréfa 21,1 milljarði. Erlend verðbréfakaup námu 10,8 milljörðum.

Séreignardeild
Inneignir sjóðfélaga séreignardeildar í árslok 2006 námu 5,5 milljörðum sem er hækkun um 35% frá fyrra ári. Ávöxtun deildarinnar var 20% sem samsvarar rúmlega 12% raunávöxtun. Um 40 þúsund einstaklingar áttu inneign í deildinni í árslok.

“Góð afkoma sjóðsins á liðnu ári skýrist að stórum hluta af hagstæðri þróun á erlendum hlutabréfamörkuðum sem fór saman við lækkun gengis krónunnar. Einnig sýndu aðrir eignaflokkar góða ávöxtun þó hækkun innlendu hlutabréfanna hafi ekki verið eins mikil og á liðnum árum.” að sögn Þorgeirs Eyjólfssonar forstjóra LV.