Framtíðarsýn Landssamtaka lífeyrissjóða í lífeyrismálum.

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða kynnti á fulltrúaráðsfundi samtakanna nú í vikunni stefnumótunarvinnu, sem unnið hefur verið að síðan í október s.l. Er þetta í þriðja skiptið sem stjórn LL leggur fram stefnumótun fyrir samtökin, en síðast var það gert árið 2002. Sérstaka athygli vakti framtíðarsýn stjórnarinnar í málefnum lífeyrissjóðanna.

Framtíðarsýn

  • Meðalævi lengist, skuldbindingar aukast enn
  • Lífeyrissjóðum fækkar áfram
  • Sveigjanlegar lífeyrisgreiðslur og iðgjöld
  • Lífeyrissparnaður eykst
  • Meiri kröfur um upplýsingagjöf
  • Meiri samkeppni milli lífeyrissjóða
  • Fjarfestingarheimildir verða rýmkaðar
  • Uppgjörsreglur breytast

 

Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á traustum grunni og er einn af hornsteinum íslensks þjóðfélags. Kerfið byggir á heilstæðri ramma­löggjöf um lífeyrissjóðina þar sem m.a. er kveðið á um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, lágmarksréttindi og eftirlit með starfsemi sjóðanna.

 

Þegar horft er til framtíðar má fastlega búast við því að meðalævi sjóðfélaga lengist frá því sem nú er sem eykur lífeyrisskuld­bindingar sjóðanna.

 

Margt bendir til þess að frekari þróun verði á sameiningu sjóða þannig að eftir nokkur ár verði starfandi mun færri sjóðir en nú er jafnvel á bilinu tíu til fimmtán sjóðir.

 

Með auknum viðbótarlífeyrissparnaði almennings gefst einnig möguleiki á sveigjanlegum lífeyrisgreiðslum. Ennfremur má búast við auknum sveigjanleika varðandi innborguð iðgjöld sjóðfélaga t.d að heimildir launþega til viðbótarlífeyrissparnaðar verði auknar.

 

Þá mun lífeyrissparnaður af ýmsum toga að öllum líkindum aukast verulega á næstu árum því ljóst er að sú kynslóð sem nú er á vinnu­aldri mun gera meiri kröfur til lífsgæða þegar hún hættir launuðum störfum og fer að njóta uppsafnaðs lífeyrissparnaðar.

 

Meiri kröfur verða einnig gerðar til lífeyrissjóðanna um upp­lýsinga­gjöf en verið hefur bæði af hálfu hins opinbera og sjóð­félaga.

 

Búast má við að íslenskir lífeyrissjóðir verði fyrir vaxandi samkeppni af hálfu erlendra lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar i framtíðinni. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru í sterkri stöðu til að mæta slíkri samkeppni  sem mun kalla á ýmsar nýjungar í starfsemi sjóðanna og fleiri afurðir.

 

Líklegt er að uppgjörsreglum lífeyrissjóðanna verði breytt í framtíðinni þannig að sem flestar eignir sjóðanna færist á markaðsvirði. Það auðveldar samanburð sjóðanna varðandi stöðu þeirra, ávöxtun og fjárfestingar­árangur.

 

Í ljósi örrar þróunar á fjármálamörkuðum hér á landi og erlendis munu fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna að öllum líkindum verða rýmkaðar á næstu árum. 

 

Allir þessir þættir sem móta starfsumhverfi lífeyrissjóðanna á næstu árum eru í senn spennandi og ögrandi verkefni fyrir starfsfólk sjóðanna og stjórnir þeirra. Hvernig til tekst fer síðan eftir árangri einstakra lífeyris­sjóða og hæfni þeirra til að takast á við breytt umhverfi og fram­þróun á næstu árum. 


Hér er hægt að nálgast stefnumótun stjórnar LL.