Framtakssjóður Lífeyrissjóðanna getur vel við unað eftir sölu hlutafjár í Vodafone

Framtakssjóður íslands (FSÍ) sem er í eigu lífeyrissjóða, getur vel unað við það verð sem sjóðurinn fékk fyrir 40% hlut í Fjarskiptum hf., rekstrarfélagi Vodafone á Íslandi. Grein úr Viðskiptablaðinu 6. des 2012

Framtakssjóður íslands (FSÍ) sem er í eigu lífeyrissjóða,  getur vel unað við það verð sem sjóðurinn fékk fyrir 40% hlut í Fjarskiptum hf., rekstrarfélagi Vodafone á íslandi. Lokuðu útboði til fag- og stofnanafjárfesta lauk á mánudag þar sem hver hlutur var seldur á 31,5 krónur. Eftirspurn reyndist nærri tíu milljarðar króna sem er 2,4 sinnum meira en í boði var. Útboðsgengi var á bilinu 28,8 til 33,3 krónur. Nokkur umræða var um verðlagningu bréfanna og þótti ýmsum verðið hátt. Þannig mælti IFS greining ekki með kaupum og verðlagði bréfin á 25,1 krónu. Sérfræðingum IFS þótti útboðsverðið of hátt og sögðu að verðlagningin miðist við félag sem muni vaxa. Í þeirra huga sé Vodafone hins vegar félag með rekstur án vaxtar. Í ljósi umræðu um verðmat á félaginu má seljandinn, Framtakssjóður Íslands, vera sáttur við það verð sem fékkst í lokaða hluta útboðsins.
Ekki voru þó allir greiningaraðilar á einu máli um að verðið væri of hátt. Greiningardeild Arion banka gaf einnig út ráðgjöf fyrir fagfjárfesta og sagði útboðsgengið í hærra lagi og ekki áberandi útboðsafslátt að finna. Hlutir í félaginu voru hins vegar verðlagðir á 32,5 hlut eða krónu hærra en raunin varð. „Má vera að það hugtak sé fallið í gleymskunnar dá á íslandi í gjaldeyrishöftum þar sem fjárfestingarkostir eru af skornum skammti. Okkar virðismat gefur verðið 32,5 krónur á hlut. Við ráðleggjum því kaup á hlutum í félaginu nærri neðri mörkum útboðsins," sagði í greiningunni. Greiningardeild Arion var fullviss um að útboðið myndi heppnast, enda seljandinn í eigu margra stærstu fjárfesta landsins. Er þar átt við lífeyrissjóði sem aftur eiga FSÍ. Útboðið mætti því einnig skoða sem leið til að færa eignina frá FSI til eigenda hans. Listi yfir stærstu eigendur Vodafone eftir lokaða útboðið hefur ekki verið birtur en gera má ráð fyrir að hann verði birtur að loknu almenna útboðinu.
Seinni hluta útboðsins lýkur í dag. I almenna útboðinu er 10% hlutur boðinn til sölu á því verði sem markaðist í lokaða útboðinu, þ.e. 31,5 krónur á hlut. Ef eftirspurn mælist næg, eins og raunin var í lokaða útboðinu, mun FSI bjóða til sölu 10% hlut til viðbótar. Þeim hlut á að úthluta þannig að eignarhald verði sem dreifðast.