Framtakssjóður Íslands slhf. hefur gengið frá samkomulagi um kaup á 40% hlutafjár í Promens hf. Kaupverð hlutarins er 6,6 milljarðar króna og er að hluta til hlutafjáraukning í Promens sem verður nýtt til lækkunar skulda og til fjárfestinga. Meðal þeirra verkefna sem Promens vinnur að um þessar mundir er stækkun á verksmiðju félagsins á Dalvík. Við kaupin minnkar hlutur Horns fjárfestingarfélags hf. í Promens úr 99% í 59%. Stefnt er að skráningu Promens á hlutabréfamarkað á næstu tveimur til þremur árum.
Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum. Fyrirtækið framleiðir meðal annars umbúðir fyrir matvæli, snyrtivörur og lyf, auk íhluta fyrir bifreiðar, landbúnaðarvélar og þungavinnuvélar. Promens þjónar fyrirtækjum í fjölmörgum atvinnugreinum, s.s. matvinnslufyrirtækjum, efnaverksmiðjum, lyfjaframleiðendum og framleiðendum bifreiða og raftækja. Velta Promens á árinu 2010 nam 94,6 milljörðum króna (584 milljónum evra) og hagnaður eftir skatta nam 1,9 milljörðum króna (11,7 milljónum evra). Hjá félaginu starfa nú um 4.200 starfsmenn, þar af um 80 á Íslandi, þar sem félagið á tvö fyrirtæki, Promens Dalvík og Promens Tempru.
Rekstur íslensku félaganna tveggja hefur gengið mjög vel síðustu misseri og ár. Upphaf Promens má rekja til stofnunar Sæplasts á Dalvík árið 1984 en félagið starfrækir þar enn öfluga verksmiðju undir heitinu Promens Dalvík þar sem starfa að jafnaði 40-50 starfsmenn. Um þessar mundir er unnið að stækkun verksmiðjunnar á Dalvík til að mæta síaukinni eftirspurn. Eftir kaup Framtakssjóðs Íslands mun sjóðurinn eiga 40% hlutafjár í Promens, Horn fjárfestingarfélag rúm 59% og lykilstarfsmenn tæpt 1%. Kaupin eru gerð meðal annars með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.
„Promens er öflugt félag sem hefur náð miklum árangri í að efla og styrkja rekstur sinn í kjölfar efnahagserfiðleikanna í Evrópu árin 2008 og 2009. Vöruframboð félagsins er mjög breitt og starfsemin um allan heim, meðal annars á Íslandi. Það eru góð tækifæri á þeim mörkuðum sem Promens starfar á og fyrirtækið verður án efa spennandi fjárfestingarkostur þegar það verður skráð á hlutabréfamarkað. Við munum starfa náið með öðrum hluthöfum, stjórnendum og starfsfólki að því að efla reksturinn enn frekar.“ segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.