Framlag atvinnurekenda hækkar úr 6% í 8%.

Samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins, sem skrifað var undir á miðnætti, þá hækkar framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði úr 6% í 7,5% á samningstímanum. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna samninganna kemur m.a. fram að hún hyggist beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,45% frá 1. janúar 2007 gegn því að Samtök atvinnulífsins hækki iðgjald í lífeyrissjóði í 8% frá sama degi.

 

Framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð hækkar úr 6,0% og verður:

Frá 1. janúar 2005                7,0%.

Frá 1. janúar 2007                8,0%.

Frá 1. janúar 2005 fellur niður skylda atvinnurekenda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð án framlags launamanns. Áfram á launamaður rétt á 2% mótframlagi atvinnurekenda í séreignasjóð ef launamaður sparar sjálfur 2% af launum eða meira. Á móti kemur jafnframt að tryggingargjald atvinnurekenda til ríkisins lækkar um 0,45%, úr 5,73% í 5,28%. frá 1. janúar 2007. Kostnaðarhækkun atvinnurekenda vegna aukinna framlaga í lífeyrissjóði að frádreginni lækkun tryggingagjalds er áætluð 1,1% samtals þegar þessar breytingar verða að fullu komnar til framkvæmda í ársbyrjun 2007.

Vegna mikilvægis samtryggingarinnar í lífeyriskerfinu eru samningsaðilar sammála um að komið verði á fót sérstakri lífeyrisnefnd SA og ASÍ, til að gera tillögur um lausn á þeim vanda sem nú steðjar að lífeyrissjóðunum og um kerfisbreytingar sem horfa til lengri tíma. Nefndin skal hefja störf í marsmánuði 2004 og ljúka störfum með lokaskýrslu og beinum tillögum fyrir árslok 2004.