Franska ríkisstjórnin ætlar að hækka eftirlaunaaldur og skattleggja hátekjur sérstaklega til að stuðla að því að lífeyriskerfi landsmanna standi undir sér. Frakkar geta farið á eftirlaun við sextugsaldur en nú boða stjórnvöld að eftirlaunaaldur hækki í áföngum í 62 ár til 2018.
Samtök atvinnurekenda og fleiri höfðu vænst þess að hækkun í 63 ár yrði sett sem markmið og ríkisstjórnin hafði reyndar gefið slíkt í skyn en hún kaus að stíga styttra skref þegar á reyndi. Verkalýðssamtök í Frakklandi hófu þegar í stað mótmælaaðgerðir á götum úti gegn áformum stjórnvalda.
„Það eru ekki til nein töfrabrögð til stuðnings lífeyriskerfinu“, sagði Eric Woerth, atvinnumálaráðherra Frakklands, þegar hann kynnti áform ríkisstjórnarinnar eftir að hafa rætt málið við forystumenn hagsmunasamtaka launafólks í þrjá mánuði án þess að mæta þar miklum skilningi. Hann benti á að ef ekki yrði brugðist við myndi vanta 64 milljarða evra til að standa undir lífeyrisskuldbindingum Frakka árið 2050.
„Við getum ekki lengur horft fram hjá þeirri staðreynd að franska þjóðin eldist. Evrópskir grannar okkar bregðast við með því að vinna lengur fram eftir ævinni og það er þróun sem fer ekki hjá garði hjá okkur,“ sagði ráðherrann enn fremur.
Nicolas Sarkozy hefur haft á stefnuskrá sinni að hækka eftirlaunaaldur í Frakklandi allt frá því hann var kjörinn forseti árið 2007. Hann hefur jafnframt verið býsna þungorður í garð forvera síns úr röðum jafnaðarmanna, François Mitterrands, sem lækkaði eftirlaunaaldur Frakka árið 1984.
„Hefði Mitterand látið vera að lækka eftirlaunaaldur og stytta vinnuvikuna í ofanálag stæðu Frakkar frammi fyrir minni vanda nú en raun ber vitni“, sagði Sarkozy opinberlega í maí 2010.
Sjálf staða lífeyriskerfisins til lengri tíma er vissulega kjarni máls í ráðstöfunum frönsku ríkisstjórnarinnar en til skamms tíma horfir hún ekki síður til þess að hætta er á að alþjóðlegu matsfyrirtækin Standard & Poor's, Moody's og Fitch lækki lánshæfismat ríkissjóðs Frakklands ef ekki verður brugðist við yfirvofandi hallarekstri lífeyriskerfisins. Lánshæfismatið nú er AAA og í ljósi þess nýtur franska ríkið bestu kjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ef matið lækkar hins vegar lenda Frakkar í svipuðum sporum og til dæmis Grikkir og þurfa þá að greiða mun hærri vexti af lánum sem tekin eru til að halda ríkisrekstrinum gangandi.
Þó svo að Frakkar hækki eftirlaunaaldur sinn í 62 ár væri hann samt með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Í Þýskalandi er eftirlaunaaldurinn 67 ár og í Bretlandi og á Ítalíu er hann 65 ár, svo dæmi séu tekin. Slík rök duga hins vegar skammt til að lægja ófriðaröldur í Frakklandi vegna breytinga í lífeyriskerfinu, enda eru Frakkar þekktir fyrir að láta vel í sér heyra ef samfélagsþróunin er þeim ekki að skapi.
Endursagt úr e24.no