Fjórðungur Olíusjóðs Noregs „gufaði upp“!

Olíusjóður Noregs (e. The Government Pension Fund) tapaði 633 milljónum norskra króna, jafnvirði um 10.000 milljarða íslenskra króna, á fjárfestingum sínum á árinu 2008. Lífeyrissjóðurinn tapaði einkum á verðfalli hlutabréfa á þriðja og fjórða ársfjórðungnum.
Þetta er versta rekstrarafkoma í sögu sjóðsins og jafngildir því að eignir hans hafi rýrnað um tæplega fjórðung eða nánar til tekið um 23,3%. Sjóðurinn stækkaði engu að síður á árinu vegna tekna sem í hann streymdu af olíuvinnslu. Eigið fé var í lok árs 2008 um 2.275 milljarðar norskra króna.

Fréttinni um afkomu Olíusjóðsins fylgdi mikill hvellur í þjóðmálaumræðunni í Noregi. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar beindu ekki síst kastljósum að fjárfestingarstefnu sjóðsins og launakjörum yfirmanna hans. Fram kom að árslaun Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóra fjárfestinga sjóðsins, hefðu verið yfir 11,1 milljón norskra króna á árinu 2008 (jafnvirði 177 milljóna ísl. króna), þar af 5,3 milljónir króna sem töldust bónusgreiðslur fyrir árangursríkt starf. Þetta eru tíföld forsætisráðherralaun í Noregi á sama tíma. Kristín Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, kvaðst ekki hafa haft hugmynd um launakjör yfirmanna sjóðsins og sagði þau vera bæði „ógnvekjandi og óskiljanleg“. Slyngstad verður nú að sætta sig við dúndrandi kjaraskerðingu því ákveðið er að árslaun hans 2009 verði 5,3 milljónir norskra króna (jafnvirði 85 milljóna ísl. króna) og hvorki hann né aðrir í bankanum fái bónusgreiðslur af nokkru tagi. 

 

Blaðið Aftenposten segir að samanlagt tap Olíusjóðsins árið 2008 og fyrstu tvo mánuði ársins 2009 nemi um 800 milljörðum norskra króna. Til samanburðar má geta þess að heildarútgjöld norska ríkisins nema um 870 milljörðum norskra króna samkvæmt fjárlögum 2009. Þetta tap svarar til um 6 milljóna íslenskra króna á hverja fjölskyldu/heimili í Noregi.

 

Olíusjóður Noregs var stofnaður í júní 1990 og hefur það hlutverk að ávaxta nettóhagnað ríkisins olíuvinnslu landsins. Sjóðurinn er í raun formlega tengdur eftirlaunakerfi Noregs því honum er  ætlað að taka við olíugróða ríkissjóðs og ávaxta fjármunina til að norska þjóðin geti staðið betur undir lífeyrisgreiðslum framtíðarinnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ítrekað lýst yfir að Norðmenn standi öðrum þjóðum betur að vígi varðandi lífeyrisgreiðslur framtíðarinar, þökk sé Olíusjóðnum. Sjóðurinn fær tekjur af skatti sem lagður er á olíufélögin og beinar tekjur af hagnaði þeirra fyrirtækja sem ríkið á og stunda olíuvinnslu og viðskipti með olíu og gas. Sjóðurinn kaupir hlutabréf og verðbréf í útlöndum og Seðlabanki Noregs rekur sjóðinn frá degi til dags.


Heimildir: globalpensions.com, Aftenposten og na24.no