Fjármálaráðherra skipar umsjónaraðila með lífeyrissjóðum í rekstri og eignastýringu hjá Landsbankanum.

Fjármálaráðherra hefur að tillögu Fjármálaeftirlitsins skipað Íslenska lífeyrissjóðnum, Lífeyrissjóði Eimskipafélags Íslands, Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóði FÍA og Kili lífeyrissjóði umsjónaraðila sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessir lífeyrissjóðir eru í reksti og eignastýringu Landsbankans.

Tillögur Fjármálaeftirlitsins um skipan umsjónaraðila eru fram komnar í kjölfar rannsóknar eftirlitsins á því hvort viðkomandi sjóðir hafi gerst brotlegir við lög nr. 129/1997 varðandi starfsemi á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið hefur vísað málinu til frekari rannsóknar sérstaks saksóknara sem í dag hóf opinbera rannsókn á hinum meintu brotum.

Umsjónaraðili Íslenska lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs Eimskipafélags Íslands frá og með 17. mars 2009 er Lára V. Júlíusdóttir hrl.

Umsjónaraðili Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóðs FÍA og Kjalar lífeyrissjóðs frá og með 17. mars 2009 er Viðar Lúðvíksson hrl.

Umsjónaraðilar taka við réttindum og skyldum stjórnar og framkvæmdastjóra eftir því sem nánar er kveðið á um í erindisbréfum þeirra. Erindisbréfin gilda til 1. júlí 2009 og skulu umsjónaraðilar þá hafa lagt fram tillögur um framtíð sjóðanna fyrir fjármálaráðherra.

Vakin er athygli á því að daglegur rekstur lífeyrissjóðanna helst óbreyttur og mun hagsmuna sjóðfélaga verða gætt í hvívetna. Á næstu dögum verður sjóðfélögum umræddra lífeyrissjóða sent bréf með frekari upplýsingum um stöðu mála og næstu skref.Áréttað skal að þau meintu brot sem hér um ræðir varða starfsemi umræddra lífeyrissjóða.