Leiðir af sér umtalsverða lækkun rekstrarkostnaðar en réttindi sjóðfélaga haldast óbreytt. Fjármálaráðuneytið staðfesti fyrr í mánuðinum nýjar samþykktir Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, LSS, sem fela í sér sameiningu fimm lífeyrissjóða og verður sameinaður sjóður rekinn sem sérstök bæjarfélagadeild (B-deild) innan LSS. Allir sjóðirnir eru með bakábyrgð viðkomandi sveitarfélags, en þeim var með lögum lokað fyrir nýjum sjóðfélögum árið 1998. Með sameiningunni næst fram umtalsverð lækkun rekstrarkostnaðar auk þess sem tryggt er að mikilvæg þekking á rekstri sjóðanna verður áfram fyrir hendi, en LSS hefur annast rekstur þeirra um nokkurt skeið.
Sjóðirnir sem nú hafa sameinast eru: Eftirlaunasjóður starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar (ESH), Lífeyrissjóður Akraneskaupstaðar (LsA), Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar (LsH) Lífeyrissjóður Neskaupstaðar (LsN) og Lífeyrissjóður starfsmanna Vestmannaeyjabæjar.
Réttindi haldast óbreytt
Megin forsenda sameiningarinnar er að réttindi og réttindaávinnsla sjóðfélaga verður óbreytt, skuldbindingum hvers launagreiðanda verður haldið aðgreindum og bakábyrgð viðkomandi sveitarfélags verður óbreytt. Eignasöfn sjóðanna fimm hafa hins vegar verið sameinuð í eitt safn sem er yfir 4 milljarðar króna að stærð. Alls bætast um 3000 sjóðfélagar við LSS með þessari sameiningu en á síðasta áru voru að meðaltali um 15 þúsund virkir sjóðfélagar sem greiddu til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og rúmlega 1900 fengu greiddan lífeyri úr sjóðnum.
Undirbúningur að sameiningu sjóðanna hefur staðið yfir frá árinu 2009 með tilheyrandi hagkvæmnigreiningu, undirbúningsvinnu og kynningu fyrir stjórnum, starfsmannafélögum og bæjarráðum viðkomandi sveitarfélaga